Reitir fasteignafélag hefur fest kaupa á 15 hektara landi fyrir atvinnuhúsnæði í landi Blikastaða í Mosfellsbæ. Atvinnusvæðið liggur við Vesturlandsveg á sveitarfélagamörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Nemur kaupverðið 850 milljónum króna og er gert ráð fyrir að afhending á landinu muni fara fram í árslok.

Áætlað byggingarmagn á á landinu er um 75-110 þúsund fermetrar. og er gert ráð fyrir því að svæðið verði fullbyggt á næstu 8 til 12 árum. Segir í fréttatilkynningunni að stjórnendur Reita sjáí fram á skort á lóðum fyrir atvinnuhúsnæði og líta því til atvinnusvæðisins í landi Blikastaða sem hluta framtíðarlausnar í þeim efnum.

Í tilkynningunni segir Guðjón Auðunsson forstjóri Reita: „Kaupin skapa tækifæri til frekari fjárfestinga fyrir Reiti og opna á tækifæri til að bjóða upp á fleiri valkosti til að uppfylla húsnæðisþarfir núverandi og nýrra viðskiptavina en áður hefur verið. Um er að ræða langtímaverkefni, en gert er ráð fyrir að svæðið allt verði fullbyggt á 8-12 árum. Ljóst er að heildarfjárfesting Reita á svæðinu verður veruleg á þessu tímabili en hugsanlega verður hluti landsins seldur til byggingaraðila og/eða beint til fyrirtækja“.