Reitir fasteignafélag hefur ákveðið að ganga til samninga við eigendur fasteignasjóðana SRE I slhf. og SRE II slhf. sem eru í rekstri Stefnis hf., um kaup Reita á tilteknum fasteignafélögum.

Verðmæti kaupanna er samtals um 17.980 milljónir og verður að fullu fjármagnað með lánsfé og yfirtöku áhvílandi skulda.

Samtals eru þetta tæplega 37.500 fm ásamt byggingarrétti. Meðal þeirra fasteigna sem um ræðir er Hótel Borg, Borgartún 37, Guðrúnartún 10, Þingvallarstræti 23 á Akureyri, Laugavegur 77, Fiskislóð 11, Skúlagata 17, Síðumúli 16-18 og Faxafen 5. Fasteignirnar eru í útleigu til um 20 aðila og séu með um  99% útleiguhlutfall. Leigutekjur á ársgrundvelli nema um 1.360 milljónum króna.

Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita segir í tilkynningu að „kaupin falla vel að eignasafni félagsins og fjárfestingarstefnu þess, samræmast vel þeim markmiðum sem félagið hefur sett sér varðandi fjármagnsskipan til framtíðar og arðsemi. Með kaupunum stækkar eignasafn Reita um 9% í fermetrum talið, bókfært virði eignasafnsins eykst um 17% og áætlaður rekstrarhagnaður um 18%. Um er að ræða fasteignasafn með samvali öflugra leigutaka sem við hjá Reitum hlökkum til samstarfs við.“