Festi hf. sérhæfir sig í fjárfestingum í verslunarfyrirtækjum og öðrum félögum sem tengjast verslunarrekstri. Festi á 29 verslanir undir fimm vörumerkjum en Festi á einnig Bakkann vöruhótel og Festi Fasteignir.

Smásölustarfsemi Festi samanstendur af Krónunni, Nóatúni, Elko og Bakkanum vöruhóteli. Tekjuauknnig milli rekstrarára var 2,3%. Framlegðarstig var 20,3% samanborið við 20,1% fyrra ár. Á móti hækkaði launakostnaður samstæðunnar um 6,9% sem að mestu má rekja til kjarasamningsbundna launahækkana en einnig var áhersla rekstrarársins á að auka sjálfstæði dótturfélaga Festi hf. með því að færa stoðdeildir sem áður voru í móðurfélagi til dótturfélaga. Þetta hefur þau áhrif að launakostnaður dótturfélaga eykst á meðan að annar rekstrarkostnaður lækkar. Annar rekstrarkostnaður dróst saman um 2,4%. EBITDA hækkaði um 54 milljónir króna milli ára en EBITDA framlegð er 5,8% og er óbreytt milli ára. Ársverk voru 623 samanborið við 621 rekstrarárið 2016/17.

Breytt samkeppnisumhverfi hafði áhrif á rekstur félagins á rekstrarárinu en þrátt fyrir það jókst sala samstæðunnar. Að teknu tilliti til aflagðrar starfsemi (Intersport) var aukning í vörusölu 2,3%, aukning í matvöru var 1,3% á meðan aukning í raftækjum var 4,8%.

Festi tók ákvörðun um að hætta rekstri Intersport á árinu og var einu verslun félagsins lokað. Rekstur fasteignafélaganna Höfðaeigna og Festi fasteigna var sameinaður í Festi fasteignum. Á tímabilinu endurgerði Krónan verslun sína á Akranesi, lauk endurgerð Bíldshöfða ásamt því að opna í ágúst nýtt verslunarform undir heitinu Kr. í Vík í Mýrdal. Kr. er arftaki Kjarvals og er smækkuð mynd af Krónu, aðlöguð að smærri mörkuðum. Rekstrarárið var fyrsta fulla rekstrarár Nóatúns ehf. en áður var verslun Nóatúns hluti af rekstri Krónunnar. Breytingar urðu einnig á fasteignasafni Festi fasteigna en helst bera að nefna að eignin að Kauptúni 6 var seld og framkvæmdir hófust við nýbyggingu að Akrabraut í Garðabæ.

Þann 9. júní 2017 var tilkynnt um fyrirhuguð kaup N1 hf. á öllu útgefnu hlutafé í Festi hf. Samkeppniseftirlitið hefur undanfarna mánuði haft samkeppnisleg áhrif samrunans til rannsóknar. Frummat Samkeppniseftirlitsins er að samruninn hafi að óbreyttu í för með sér röskun á samkeppni. N1 hefur lagt fram drög að skilyrðum sem félagið er tilbúið að gangast undir og telur þau skilyrði geta eytt mögulegum samkeppnishindrunum vegna samrunans.