Rekstrarafgangur Kópavogsbæjar nam tæplega 1,2 milljörðum króna árið 2016. Það er ríflega fjórfalt meiri afgangur en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun sem gerði ráð fyrir 257 milljón króna. Þetta kemur fram í ársreikningi Kópavogsbæjar sem lagður verður til fyrri umræðu í bæjarstjórn þriðjudaginn 25. apríl.

Jafnframt fór skuldahlutfall bæjarins undir 150% viðmið. Skuldahlutfall Kópavogsbæjar var 146% í árslok sem þýðir að bærinn er laus undan eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, tveimur árum fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Tekjur sveitarfélagsins námu rúmlega 28,1 milljarði en gert hafði verið ráð fyrir ríflega 26 milljörðum í tekjur fyrir A og B-hluta. Eigið fé samstæðunnar nam í árslok 17,2 milljörðum. Skuldahlutfall samstæðu er sem fyrr segir 146% en var 162,5% í árslok 2015. Það var hæst 242% árið 2010. Ekki voru tekin ný lán á árinu 2016 og alls greiddar 2,1 milljarðar í afborganir lána.

„Það eru ánægjuleg og mikilsverð tímamót að skuldahlutfallið sé komið niður fyrir 150% og eins að rekstrarafgangur sé svo mikill sem raun ber vitni. Jákvæð afkoma bæjarfélagsins skýrist meðal annars af lóðaúthlutunum og fjölgun í bæjarfélaginu. Það eru ýmis jákvæð teikn á lofti, en við leggjum samt áfram áherslu á aðhald og í rekstrinum, það er ekki síst nauðsynlegt þegar svo mikil þensla er í samfélaginu. Ársreikningurinn endurspeglar þessar áherslur sem lagðar hafa verið í rekstri bæjarfélagsins undanfarin ár,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.