Afkoma rekstrarreiknings samstæðu Hörpu ohf. var neikvæð um 461,5 milljónir króna á síðasta ári og var tæplega tvöfalt verri en árið 2017. EBIDTA félagsins var jákvæð um 42 milljónir króna og er jákvæð annað árið í röð. Ástæðan fyrir tapinu er skuldabréfalán til fjármögnunar byggingar hússins sem vistað er í dótturfélagi fyrirtækisins, Greiðslumiðluninni Hring ehf.

Tekjur af viðburðahaldi voru 757 milljónir króna í fyrra og hækkuðu um tuttugu milljónir milli ára. Leigutekjur hækkuðu lítillega, eða um þrjár milljónir, og voru rúmar 179 milljónir.

Í erindi Þórðar Sverrissonar, fráfarandi stjórnarformanns Hörpu, á aðalfundinum sem fram fór í gær var rekstrarumhverfi félagsins gert að umtalsefni. Benti hann á að afkoma samstæðunnar, án tillit til rekstrarframlaga, hafi farið batnandi þrátt fyrir há fasteignagjöld. Harpa greiddi á síðasta ári 267 milljónir í fasteignagjöld en það eru um 1,49 prósent af heildartekjum borgarinnar af slíkum gjöldum. Deilur fyrirtækisins við Þjóðskrá vegna þeirra hafa ítrekað verið kærðar og meðal annars ratað til Hæstaréttar.

„Þá er það mat fráfarandi stjórnar að bókfært verð eigin fjár samstæðunnar sé verulega vanmetið og efnahagsstaða Hörpu traust væri reikningsskilum félagsins breytt til samræmis við fyrirliggjandi tillögur um að eignfæra samningsbundið framlag frá ríkinu og Reykjavíkurborg vegna afborgunar og vaxta af fjármögnun fasteignar. Með þeim hætti næmi eigið fé Hörpu ohf. 12 milljörðum króna,“ segir Þórður. Eigið fé fyrirtækisins er aftur á móti neikvætt um rúmlega hálfan milljarð.

Eðli málsins samkvæmt greiddi Harpa engan tekjuskatt vegna reksturs ársins 2018. Yfirfæranlegt skattalegt tap samstæðunnar nam í árslok 7,3 milljörðum króna en er ekki eiginfært vegna óvissu um nýtingu.

Um 1.500 viðburðir voru haldnir í húsinu á síðasta ári og voru heimsóknir yfir tvær milljónir. Þar af greiddu nærri 300 þúsund fyrir aðgang að tónleikum eða öðrum viðburðum. Velta af miðasölu nam 1,4 milljarði.

Á aðalfundinum var Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir kjörin formaður stjórnar. Guðni Tómasson kemur nýr inn í stjórn í stað Vilhjálms Egilssonar. Fyrir eru í stjórninni Aðalheiður Magnúsdóttir, Arna Schram og Árni Geir Pálsson.