Tillögur aðgerðahóps um framtíðarrekstur Akureyrarbæjar voru samþykktar á fundi bæjarráðs í gær, fimmtudaginn 19. maí. Samkvæmt tillögum hópsins, auk annarra breytinga, verður áætluð rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarfélagsins fyrir yfirstandandi ár 330 milljónum króna betri en gert var ráð fyrir í upphaflegri fjárhagsáætlun bæjarfélagsins fyrir árið 2016.

Í aðgerðahópnum sátu oddvitar allra flokka sem eiga fulltrúa í bæjarstjórn, auk bæjarstjóra og fjármálastjóra bæjarins. Hópnum var ætlað að leita leiða til að draga úr rekstrarhalla þegar á þessu ári og að leggja til aðgerðir sem mæta áætlaðri hagræðingu næstu ára.

Í tilkynningu frá hópnum segir að hann hafi rýnt í rekstur allra málaflokka sveitarfélagsins með það að leiðarljósi að draga sem minnst úr grunnþjónustu við íbúa sveitarfélagsins. Lítið verði dregið úr framlögum bæjarins til fræðslumála, eða um tæplega hálft prósent á árinu 2016 og áætluð hagræðing í félagsþjónustu nemur 1,6% á árinu 2016 frá upphaflegri áætlun.