Ríkisútvarpið græddi 1.535 milljarða króna á síðasta ári vegna sölu á byggingarrétti á lóð sinni við Efstaleiti en rekstrartekjur félagsins námu rúmum 6 milljörðum króna.

Þar af komu 3,8 milljarðar frá þjónustusamningi við ríkið undir liðnum Almannaþjónusta og síðan rúmir 2,2 milljarðar frá samkeppnisrekstri.

Á árinu var nýr þjónustusamningur undirritaður við ríkið fyrir árin 2016 til 2019, sem sagður er tryggja meiri festu í starfsemi fyrirtækisins en verið hefur um langa hríð.

Hagnaður af reglulegri starfsemi fyrirtækisins nam 95 milljónum króna fyrir skatta, en fram kemur í fréttatilkynningu með ársreikningnum að félagið muni ekki greiða skatta af hagnaðinum vegna uppsafnaðs taps frá fyrri tíð.

Rekstrargjöld 5,7 milljarðar

Rekstrargjöld félagsins námu 5,7 milljörðum króna en þau skiptast í bókum félagsins í tæpa 5 milljarða fyrir almannaþjónustu og hins vegar 440 milljónir fyrir samkeppnisrekstur félagsins.

Heildarrekstrarhagnaður félagsins nam af þessu 1,85 milljörðum króna, en með hreinum fjármagnsgjöldum félagsins sem námu 221 milljónum stóð hagnaðurinn fyrir tekjuskatt í 1,63 milljörðum.

Eftir 200 milljóna tekjuskatt stendur heildarafkoma opinbera hlutafélagsins því í 1.429 milljónum króna.

Byggingarréttur bætti eiginfjárhlutfallið

Eiginfjárhlutfall félagsins fer úr 6,2% í 23,8% milli ára í kjölfar sölu byggingarréttarins sem áður er nefndur, en þrátt fyrir jákvæða óvissu ríki enn óvissa um framtíðarhorfur vegna mikillar skuldsetningar vegna eldri lífeyrissjóðaskuldbindingar.

Á árinu voru stöðugildi félagsins 258 en þeim hefur fækkað á undanförnum árum, en þau voru 259 á árinu 2015, 297 árið 2013 og 324 árið 2008.

Eignir félagsins jukust jafnframt milli ára og fóru úr 7.232 milljónum í 7.837 milljónir 31. desember árið 2016. Viðskiptakröfurnar fóru úr 431,5 milljónum upp í 1.390 milljónir.

Jákvæður rekstur annað árið í röð

„Jákvæð rekstrarniðurstaða annað árið í röð undirstrikar árangur af umbótaferli sem hefur komið á jafnvægi í rekstri RÚV samhliða breyttum dagskráráherslum,“ er haft eftir Magnúsi Geir Þórðarssyni útvarpsstjóra í yfirlýsingu.

„Hann hefur náðst þrátt fyrir krefjandi rekstraraðstæður og ítrekaða lækkun á útvarpsgjaldi á undanförnum árum. Sala á byggingarrétti skilar RÚV umtalsverðum söluhagnaði sem leiðir til mikillar skuldalækkunar og mikilla bóta á eigin fé félagsins.

Nýr þjónustusamningur sem undirritaður var á síðasta ári tryggir loks fyrirsjáanleika og öryggi í tekjum félagsins til næstu ára. Á hinn bóginn er félagið enn of skuldsett vegna lífeyrissjóðsskuldbindinga frá gamalli tíð og er það mikill baggi á starfseminni í dag en á þeirri yfirskuldsetningu þarf að taka.“