Rodrigo Rato, sem var yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á árunum 2004 til 2007, er sakaður um að hafa misnotað óopinber kreditkort Bankia bankans, sem er í eigu spænska ríkisins.

Rodrigo Rato var meðal annars fjármálaráðherra Spánverja á árunum 1996 til 2000.

Talið er að Rato ásamt 64 öðrum bankamönnum tengdum Bankia, hafi eytt allt að 12 milljónum evra í hótel, lúxusföt, ferðalög, sem voru ekki tengd starfsemi bankans. Bankia var bjargað af spænska ríkinu árið 2012.

Rato neitar sök í málinu. Saksóknarar vilja að Rato verði dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi. Ef að Rato verður dæmdur sekur, gæti hann þurft að greiða sekt upp á 2,7 milljónir evra.