„Margir sölumenn hafa ekki verið á launum hjá fasteignasölum, heldur einungis á prósentum. Samkvæmt nýju lögunum hlýtur grundvöllur starfa þeirra að vera brostinn. Nú verða það eingöngu löggiltir fasteignasalar sem hafa heimild til að sinna öllum helstu störfum sem varða milligöngu um fasteignaviðskipti,“ segir Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags fasteignasala, í samtali við Fréttablaðið .

Þar kemur fram að að fasteignasölur þurfi að fjölga starfsmönnum með löggildingu sem fasteignasalar þegar ný lög um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa taka gildi á næstunni. Ingibjörg segir að framvegis megi sölumenn á fasteignasölum ekki skoða fasteignir, veita ráðgjöf eða taka niður tilboð og annast skjalagerð.

„Ég get ekki séð að allir þeir sem starfa núna sem sölumenn á prósentum geti haldið áfram að vinna við það sem þeir mega ekki. Það gefur auga leið. Þeir sem eru réttindalausir mega hins vegar sinna einföldum störfum,“ segir Ingibjörg í samtali við Fréttablaðið.

Hún segist gera ráð fyrir að fasteignasölur þurfi að fjölga starfsmönnum með löggildingu á næstunni og væntanlega muni fleiri sækja um námið sem veitir þeim réttindi til sölu fasteigna.