Ársreikningarnir íslenskra fyrirtækja í áfengisframleiðslu bera það með sér að þetta eru lítil fyrirtæki með fáa starfsmenn á launaskrá. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hefur mikil aukning orðið í framleiðslu sterkra áfengra drykkja hérlendis og undanfarin ár hafa mörg fyrirtæki verið stofnuð. Viðskiptablaðið skoðaði reikninga sex þessara nýju fyrirtækja.

Algengt er að fyrirtækin séu með frá tveimur upp í fimm stöðugildi. Öll fyrirtækin voru réttu megin við núllið árið 2015 og var hagnaðurinn frá 100 þúsund krónum upp í tæpar 17 milljónir.

Það fyrirtæki sem skilaði mesta hagnaðinum var Eimverk en mikill viðsnúningur var á rekstrinum milli ára því fyrirtækið tapaði tæpum 10 milljónum árið 2014. Eimverk er einnig skuldugasta fyrirtækið. Hafa verður í huga að í tilfelli Eimverks er töluvert stór hluti framleiðslunnar viskíið Flóki.

Það er þolinmæðisvinna að framleiða viskí og enn sem komið er hefur Eimverk að mestu verið að safna tunnum á lager. Sú tegund sem þegar er farinn á markað kallast Flóki Young Malt, sem þýðir að það er yngra en þriggja ára. Ekki er heimilt að selja áfengi undir heitinu viskí nema það hafi náð þriggja ára aldri. Fyrirtækið stefnir að því að setja fyrsta viskíið á markað á þessu ári en það verður Flóki Single Malt.

Þess má geta að annað fyrirtæki hyggst einnig koma með íslenskt viskí á markað en það er Þoran Distillery. Fyrirtækið hlaut fyrstu verðlaun í nýsköpunarkeppni Landsbankans og Matís árið 2013.

Vínframleiðendur
Vínframleiðendur

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .