Í fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árin 2018 til 2022, kemur fram í samstæðu að framlegð rekstrar verður 4.385 milljónir króna, en það miðast þá við hvort tveggja A og B hluta.Rekstrarniðurstaða eftir afskriftir í samstæðu er 3.052 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða samstæðu eftir fjármagnsliði er 717,3 milljónir króna.

Í fjárhagsáætluninni kemur fram að framlegð rekstrar í bæjarsjóði, það er A-hluta, verður 1.416 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða eftir afskriftir í bæjarsjóði er 1.021 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs eftir fjármagnsliði er 125 milljónir króna.

Gert er ráð fyrir að fjármagn til nýframkvæmda nemi 300 milljónum króna. Einnig er gert ráð fyrir að á árinu 2018 verði farið í stækkun eins leikskólans á Ásbrú og á árinu 2018 hefjist bygging fyrsta áfanga nýs skóla, Stapaskóla.

Gert er ráð fyrir 3% íbúafjölgun fyrir árin 2018 og 2019, en eftir það lækkar spáin í 2,5% fjölgun íbúa á ári. Útsvar lækkar og verður 14,52% á árinu 2018. Fasteignaskattur lækkar úr 0,5% í 0,48% af fasteignamati á árinu 2018.