*

þriðjudagur, 19. febrúar 2019
Innlent 15. júní 2018 09:56

Reykjanesbær stærsti leigumarkaðurinn

Jafn margir íbúar á Íslandi eru á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Jafn margir íbúar á Íslandi eru á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, eða um 17-18% íbúa. Akureyri og Borgarbyggð eru á meðal sveitarfélaga þar sem leigumarkaðurinn er hlutfallslega stærri en á höfuðborgarsvæðinu. Reykjanesbær er svo með hlutfallslega stærsta leigumarkaðinn, en þar er áætlað að um 13% íbúða séu í útleigu. Frá þessu er greint í greiningu hagdeildar Íbúðalánasjóðs.

Að undanförnu hefur átt sér stað mikil umræða um leigumarkað hér á landi. Umræðan hefur að miklu leyti snúist um stöðuna á höfuðborgarsvæðinu en minna hefur farið fyrir umræðu um leigumarkað utan þess. Þegar rýnt er í tölurnar kemur hins vegar í ljós að leigumarkaðurinn á landsbyggðinni er víða jafn stór eða jafnvel stærri en á höfuðborgarsvæðinu sem kann að koma einhverjum á óvart. 

Jafn margir á leigumarkaði á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu

Í febrúar síðastliðnum var gerð könnun á vegum leigumarkaðsdeildar Íbúðalánasjóðs og Zenter þar sem landsmenn voru spurðir um það hvað lýsti best búsetu þeirra. 70% íbúa höfuðborgarsvæðisins sögðust búa í eigin húsnæði, 18% sögðust vera á leigumarkaði, 10% sögðust búa í foreldrahúsum og tæplega 2% sögðu ekkert af þessu eiga við. Á landsbyggðinni fengust svipaðar niðurstöður en 74% sögðust búa í eigin húsnæði, 17% sögðust vera á leigumarkaði, 8% sögðust búa í foreldrahúsum og um 2% sögðu ekkert af þessu eiga við.