Reykjanesbær hefur varið rúmlega 200 milljónum króna í aðkeypta vinnu sérfræðinga og ráðgjöf í tengslum við endurskipulagningu á fjármálum bæjarins síðastliðin þrjú ár. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn segja brýnt að þessi kostnaður fáist endurgreiddur af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga líkt og til hafi staðið í upphafi. „Að öðrum kosti hefur ekki verið til mikils unnið,“ segir í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á bæjarstjórnarfundi á þriðjudaginn. Í upphafi viðræðna Reykjanesbæjar við lánveitendur fór Reykjanesbær fram á að milljarðar yrðu afskrifaðir af skuldum sveitarfélagsins.

Niðurstaða við­ ræðnanna fólst að mestu í endurfjármögnun lána, lækkun vaxta auk samkomulags um að hægt væri að afhenda ákveðnar eignir upp í skuldir. Hins vegar var ekki samið um beina afskrift skulda. „Þetta er auðvitað búið að taka mjög langan tíma og kosta mjög mikið. Nið­ urstaðan í þessu öllu er að það eru engar skuldir felldar niður en það er veruleg lækkun vaxta frá því sem var, enda er vaxtaumhverfið í dag auðvitað allt annað en það var,“ segir Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Því sé brýnt að sérfræðikostnaðurinn fáist endurgreiddur.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segist hafa fundað tvívegis með stjórn Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna málsins og er vongóður um að sjóðurinn endurgreiði kostnað vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu. Fordæmi séu fyrir slíkum greiðslum, meðal annars hafi slíkt verið gert þegar Álftanes gekk í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Upphæðirnar hafi hins vegar ekki verið af sömu stærðargráðu þá.

Ríkið rukki nú hæstu vextina

Böðvar segir að í kjölfar viðræðnanna sé ríkið nú í raun að rukka Reykjanesbæ um hæstu vextina af lánveitendum sveitarfélagsins. Skuldir Reykjaneshafnar voru að stærstum hluta endurfjármagnaðar með lánum frá Lánasjóði sveitarfélaga. Þá var endursamið um vaxtagreiðslur Eignarhaldsfélagsins Fasteignar (EFF). Reykjanesbær seldi fjölmargar fasteignir bæjarins á árunum fyrir hrun til EFF en leigði svo aftur af félaginu. Leigugreiðslur Reykjanesbæjar eru tengdar við þá vexti sem EFF greiðir. Ríkið eignaðist lán Glitnis til EFF við greiðslu stöðugleikaframlaga slitabús Glitnis auk þess sem ríkisbankarnir Íslandsbanki og Landsbankinn eru stórir lánveitendur.

Eftir samkomulagið við lánveitendur bera lán EFF 4,2% til 4,8% vexti en lán frá Lánasjóði sveitarfélaga vegna Reykjaneshafnar bera vexti undir 3% að sögn Böðvars.

Sjá til lands

Kjartan segir að eftir samkomulagið við lánveitendur sé útlit fyrir að Reykjanesbær komist undir 150% skuldahlutfall fyrir árið 2022 líkt og gerð sé krafa um samkvæmt sveitarstjórnarlögum. „Við teljum okkur sjá fyrir endann á þessu, það er að segja að við teljum að við komumst undir 150% skuldaviðmiðið með þessum aðgerðum. Við erum ekki komin þangað, við erum búin að marka leiðina og þurfum að fylgja henni stíft eftir,“ segir Kjartan.