Helmingur íbúða í eigu Kadeco, þróunarfélags Keflavíkurflugvallar á Ásbrú, hefur verið tekinn í notkun. Átta ár eru síðan íslenska ríkið fékk þær að gjöf frá Bandaríkjunum við brottför herliðsins héðan af landi. Í heildina er um er að ræða 900 fjölskylduíbúðir sem eru 3-5 herbergja og 1.100 einstaklingsíbúðir sem hafa sameiginleg baðherbergi og eldhús.

Þegar ríkið fékk fasteignirnar að gjöf árið 2006 voru sett lög sem undanskildu eignirnar frá greiðslu allra opinberra gjalda, þar með talið fasteignagjalda til Reykjanesbæjar.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir þetta fyrirkomulag koma sér mjög illa fyrir Reykjanesbæ. Hann segir bæjaryfirvöld vilja að þessi undanþága verði felld úr gildi og farið verði að greiða gjöld af eignunum.

Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Kadeco, segir hagsmuni Reykjanesbæjar og ríkisins samliggjandi í málinu. „Ef það hefði verið farin sú leið að þetta hefði ekki verið svona, eða þetta verið rifið eða eitthvað slíkt, þá hefði sveitarfélagið aldrei fengið neinar tekjur af fasteignunum. Öll þessi vinna sem er búin að eiga sér stað við að markaðssetja svæðið og draga nýjan iðnað til landsins hefði aldrei farið fram. Sveitarfélagið hefði þá ekki fengið neinn skapaðan hlut. En sveitarfélagið er nú að fá tekjur af öllum þeim eignum sem eru komnar í leigu og sölu og af þessum íbúum sem eru hérna og starfseminni sem er að byggjast hér upp.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .