Ákveðið hefur verið að slíta félaginu Reykjavík Energy Invest, betur þekktu sem REI, en ákvörðun um það var tekin á hluthafafundi þann 24. júní síðastliðinn. Í kjölfarið var skipuð tveggja manna skilanefnd sem sér um slit félagsins.

Í Lögbirtingablaðinu í dag er skorað á lánadrottna REI að lýsa kröfum sínum innan tveggja mánaða og verður fundur með lánadrottnum haldinn þann 17. september næstkomandi.

Reykjavík Energy Invest var viðskiptaþróunar og fjárfestingararmur Orkuveitu Reykjavíkur, en miklar deilur í kringum félagið urðu til þess að borgarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sprakk í október 2007.

Til stóð að sameina REI fyrirtækinu Geysi Green Energy, sem var í meirihlutaeigu FL Group, Atorku og Glitnis. Deilur spruttu fljótlega eftir að ákvörðun um sameiningu var tekin m.a. vegna þess að starfsmenn OR áttu að fá að kaupa hlutabréf í sameinuðu fyrirtæki á lágu gengi. Eins þótti sumum sem eignir OR, þar á meðal hlutur í HS Orku, væru settar í þetta einkafyrirtæki á lágu verði.

Þessi hnútur leystist ekki fyrr en Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, sleit stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn og myndaði meirihluta með Samfylkingu, Vinstri-grænum og Margréti Sverrisdóttur.