Reykjavíkurborg og Háskólinn í Reykjavík (HR) undirrituðu í dag samning um ráðstöfun á lóð fyrir háskólann og tengda aðila í Vatnsmýrinni, segir í tilkynningu.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir á svæðinu geti hafist um mitt næsta ár og fyrsta áfanga nýs skólahúsnæðis verði lokið í byrjun skólaárs haustið 2008. Á þessu svæði, sem er um 6,2 hektarar að stærð, er áformað að reisa háskólabyggingar á næstu 10-15 árum, en síðan fær HR aukið landrými í framtíðinni. Auk þess verða 2,4 hektarar nýttir undir stúdentagarða og 5-6 hektarar undir háskólastofnanir, rannsóknarstofnanir og þekkingarfyrirtæki.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri, og Dagur B. Eggertsson, formaður Skipulagsráðs Reykjavíkur, skrifuðu undir samninginn fyrir hönd borgarinnar, en þau Guðfinna S. Bjarnadóttir rektor og Sverrir Sverrisson, formaður háskólaráðs, fyrir hönd HR.

Í máli borgarstjóra, Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur við undirritunina kom fram að nú væri enn eitt skrefið stigið í þá átt að skapa Vatnsmýrinni ákveðna sérstöðu þar sem m.a. Háskóli Íslands, Íslensk erfðagreining, Landspítali - háskólasjúkrahús og nú Háskólinn í Reykjavík yrðu á svæðinu. Nú verður mögulegt að líta heilsteypt á athafnasvæði þessara aðila og þarfir þeirra. Fyrir borgina er mikilvægt að skapa þeim aðstöðu sem m.a. eflir samstarf þeirra enda hafi ríkur vilji staðið til þess hjá öllum aðilum.

?Varla er hægt að hugsa sér áhugaverðari aðila inn á þetta svæði en Háskólann í Reykjavík og nú er hægt að halda áfram að þróa aðstöðu í Vatnsmýrinni fyrir þekkingar- og hátæknifyrirtæki og stofnanir á því sviði auk íbúðabyggðar og margvíslegrar þjónustu,? sagði borgarstjóri.

Guðfinna S. Bjarnadóttir, rektor HR, taldi samkomulagið við Reykjavíkurborg mikil tímamót fyrir HR því svæðið bjóði upp á stórkostlega möguleika.

?Ég á mér þá sýn að gamla hafnarsvæðið og Kvosin myndi sterkt miðborgarsamfélag þar sem hafnarstarfsemi, ferðaþjónusta, menning- og listir, verslun og viðskipti munu blómstra. Í Vatnsmýrinni byggist upp þekkingar- og hátæknisamfélag í bland við íbúabyggð og útivistarsvæði", sagði Guðfinna.

?Vatnsmýrin á vonandi eftir að vekja athygli víða um heim sem orkuver hugvits, sköpunar, rannsókna og útrásar í bland við lifandi mannlíf, útivist og heilsurækt. Ég vænti þess að miðborgin og Vatnsmýrin myndi í framtíðinni eina skipulagslega heild sem muni styrkja stöðu höfuðborgarsvæðisins og Íslands í samfélagi þjóðanna og efla samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs,? bætti Guðfinna við.

Í tengslum við sameiningu Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands var ákveðið að flytja skólann á einn stað. Í kjölfar ítarlegrar þarfagreiningar og tilboðs Reykjavíkurborgar varð fyrir valinu staður í Vatnsmýrinni milli Loftleiðahótels og Nauthólsvíkur við rætur Öskjuhlíðar.

Í samkomulagi aðila er gert er ráð fyrir góðu samstarfi HR og borgarinnar við uppbyggingu svæðisins þannig að uppbyggingin falli vel að umhverfinu og verði aðdráttarafl fyrir hátæknifyrirtæki, rannsóknarstofnanir og önnur fyrirtæki á sviði nýrrar þekkingar og hugvits á þessari öld. Þegar eru farin að sjást merki þess að staðsetning HR dragi að tæknifyrirtæki, segir í tilkynningunni.

Á næstunni verður unnið að skipulagsbreytingum á svæðinu, s.s. breytingum á svæðisskipulagi, aðalskipulagi og deiliskipulagi fyrir svæðið og HR mun í samstarfi við innlenda og erlenda sérfræðinga vinna að þarfagreiningu og undirbúningi fyrir hönnun nýs háskóla. Þetta mun vinnast samhliða þeirri hugmyndasamkeppni sem fyrirhuguð er í Vatnsmýrinni.