Afkomuskýrsla Reykjavíkurborgar fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2015 var birt í dag.

Rekstrartekjur borgarinnar fyrir fyrstu níu mánuði ársins námu 105,1 milljarði króna og rekstrargjöld fyfir fjármuna námu 99 milljörðum króna.

Eftir að fjármunagjöld og skattgreiðslur höfðu verið reiknaðar með nam halli samstæðunnar 2,4 milljörðum króna. Gert hafði verið ráð fyrir 6,3 milljarða afgangi. Rekstrarniðurstaðan var því tæplega 8,8 milljörðum króna undir væntingum.

Rekstrarreikningur sama tímabils í fyrra sýnir að jákvæður afgangur samstæðunnar nam einhverjum 11 milljörðum króna. Munur milli ára er því rúmlega 13 milljarðar króna.

Lífeyrisskuldbindingar vega þungt

Helst munar um að lífeyrissjóðsskuldbindingar samstæðunnar jukust um ríflega 8,3 milljarða, og fjármagnsgjöld jukust um 2 milljarða um fram það sem fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða var jákvæð um 1,5 milljarð ef lífeyrisskuldbindingar eru ekki taldar til útgjalda.

Heildareignir samstæðunnar samkvæmt efnahagsreikningi voru 514 milljarðar króna í lok tímabilsins, en heildarskuldir námu 298 milljörðum króna. Þetta gefur eiginfjárhlutfall upp á 42%.

A-hluti og B-hluti

Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A-hluta og B-hluta.

Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, þ.e. rekstur fagsviða, Eignasjóð og Bílastæðasjóð.

Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Meðal þeirra eru Faxaflóahafnir sf., Orkuveita Reykjavíkur, Sorpa bs. og Strætó bs.