Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, undirritaði í dag kaupsamning að þremur lóðum af Faxaflóahöfnum sf. Um er að ræða lóð Áburðaverksmiðjunnar í Gufunesi, land á Geldinganesi og land í Eiðsvík.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að lóðin í Gufunes sé 200.172 m2 að stærð, ásamt öllu því sem henni fylgir. Á lóðinni er áburðarverksmiðja, en í kaupunum fylgir einnig „óskráð landfylling vestan lóðarinnar 2.062 m2 að stærð og aðrar landfyllingar sem gerðar hafa verið við sjávarsíðu lóðarinnar. Kaupverð hins selda landsvæðis er kr. 219.450.000."

„Við Geldinganes er borgin að kaupa 70 ha. landssvæði í sem þýðir að nesið er nú allt í eigu Reykjavíkurborgar. Kaupverð er kr. 103.470.721 milljón krónur," segir í tilkynningu frá borginni.

Í Eiðsvík hafa verið keyptar tvær lóðir sem eru 21.300 fermetrar. Kaupverð þeirra eru 23.371.425 krónur.

Reykjavíkurborg auglýsir eftir hugmyndum um hvað skuli gert við hið nýkeypta land.