Forstjóri Íslenskra aðalverktaka, Sigurður R. Ragnarsson, finnur fyrir minnkandi áhuga fjárfesta á byggingu hótela. Hann segir að Íslendingar ættu að staldra aðeins við í stórum fjárfestingum í ferðamannaiðnaðinum.

„Við ættum ekki að fjárfesta hömlulaust í þessu, en það eru verkefni sem við höfum verið að þefa af sem við getum sagt að hafi dregist á langinn,“ segir Sigurður sem vonar að Íslendingar læri að jafna út þær efnahagssveiflur sem hafi einkennt þjóðfélagið.

„Ég held að það sé ekkert að því að þessi uppbygging gerist yfir lengra tímabil, þannig að við Íslendingar lærum einu sinni af sögunni. Okkar efnahagur hefur verið alltaf annaðhvort í ökkla eða eyra því við erum svo mikið vertíðarfólk; nú á að fara að heyja, eða að afla, eða eins og núna að byggja hótel. Við þurfum aðeins að læra að hemja okkur í svona málum.“

Byggja 500 íbúðir

Meðal nýlegra verkefna fyrirtækisins má nefna verkefni á Keflavíkurflugvelli, þar sem fyrirtækið á uppruna sinn. Til dæmis malbikun flugbrauta vallarins, sem Sigurður segir stærstu samgönguframkvæmd á Íslandi síðustu ár, auk stækkunar flughlaða við flugstöð Leifs Eiríkssonar, flugskýli og svo flughermahúsnæði fyrir Icelandair. Meðal fleiri verkefna eru kísilverið í Helguvík, fangelsið á Hólmsheiði auk yfirumsjónar með breytingum á Smáralind.

„Við erum þessi misserin að skipta um gír. Við höfum undanfarin ár verið í stórum innviðaverkefnum, þar má nefna að ljúka Vaðlaheiðargöngum og við erum að klára Búrfellsvirkjun sem var gangsett í þarsíðustu viku,“ segir Sigurður en hann segir fyrirtækið nú færa sig meira yfir í íbúðabyggingar þar sem sé mikil uppsöfnuð þörf.

„Við erum með þrjú stór húsbyggingarverkefni núna í gangi, það er niðri á Kirkjusandi þar sem við erum byrjaðir að grafa fyrir fyrsta húsinu og byrjum að grafa fyrir næsta húsi þessa vikuna, það eru samtals um 130 íbúðir. Einnig uppi í Spöng í Grafarvogi þar sem við erum að byggja fyrir Bjarg sem er í eigu verkalýðshreyfingarinnar, þar erum við að byggja um 160 íbúðir. Svo í 201 Smára í Kópavogi þar sem við höfum hafið byggingu á yfir 200 íbúðum en þar eiga á endanum að vera um 670 íbúðir. Eftir nokkrar vikur verðum við því með um 500 íbúðir í byggingu.“

Annar lærdómur fyrirtækisins, sem komst eftir hrun í eigu svissneska verktakarisans Marti, er að sögn Sigurðar sá að það byggir ekki lengur íbúðir í eigin reikning. „Við gerðum það fyrir hrun, en höfum ekki gert það síðan. Það er stefna eigenda okkar að gera það ekki,“ segir Sigurður en fyrirtækið sem upphaflega var samvinnufélag fjölda smærri verktaka er nú alfarið í eigu svissneska fyrirtækisins.

„Það urðu ákveðnar eigendabreytingar á tíunda áratug síðustu aldar og svo aftur árið 2005, en þá voru eigendurnir orðnir færri og svo eignuðust Svisslendingarnir þann hlut með því að taka yfir skuldir.“

Markaður fyrir lúxusíbúðir mettast

Aðspurður játar Sigurður að verktakar hefðu átt að byrja fyrr að vinna úr aukinni eftirspurn eftir íbúðum þó hann bendi á að sveitarfélög hafi staðið sig misvel í því að bjóða fram lóðir.

„Reykjavíkurborg hefur því miður ekki staðið sig nógu vel, þeir hafa verið að einblína of mikið niður í 101 og þéttingu byggðar þar, sem er óhjákvæmilega ekki nema fyrir þá efnameiri. Þetta er ekki fyrir námsmenn eða fólk með lægri tekjur eða ungt fólk sem er að stíga út á markaðinn fyrst. Það vantar að sinna þeim, en þar er þörfin mest í dag,“ segir Sigurður sem segir að markaðurinn sé einnig að mettast fyrir lúxusíbúðir miðsvæðis.

„Í þessum þremur verkefnum erum við að spanna alla flóruna. Í 201 Smára verða allar tegundir af íbúðum, allt frá litlum og ódýrari, um 70 fermetra tveggja herbergja íbúðum, í stærri og dýrari íbúðir. Á Kirkjusandi, sem er ein af síðustu byggðu sjávarlóðum í Reykjavík, verða klárlega dýrari eignir, en í engum þessara tilvika er söluverðið okkar að segja til um, við byggjum fyrir aðra.“

Hann segist skilja það vel að sveitarfélög vilji þétta byggð til að nýta betur fyrirliggjandi innviði, en hann segir skorta að í og með væri opnað fyrir íbúðabyggingar á nýju landi. „Meðgöngutími þéttingarverkefna er miklu lengri. Það er m.a. vegna þess að svo margir hafa skoðun á verkefnunum, nágrannar geta komið með athugasemdir sem þarf að skoða og vinna úr og taka tillit til og svo framvegis. Íbúðirnar eru hins vegar eftirsóttari fyrir ferðamenn og þá sem geta borgað meira, enda í hringiðunni niðri í miðbæ,“ segir Sigurður en segir þau jafnframt erfiðari í sjálfri framkvæmdinni.

„Umhverfið er allt þrengra sem kemur niður á afköstunum og þar með kostnaðinum. Að sama skapi verður Landspítalinn mikil áskorun, þar sem við höfum hafið jarðvegsvinnu. Það verkefni í heild sinni er af stærðargráðu sem mun hafa áhrif á allan byggingarbransann hér á landi.

Það verður mikil áskorun að gera það sem þarf að gera í byggingu nýja Landspítalans við Hringbraut. Bæði vegna nálægðarinnar við alla íbúa á svæðinu en ekki síst við sjúkrahúsið, þar sem taka verður tillit til starfseminnar og að þar liggja sjúklingar í veikindum sínum. Það gerir það að enn meiri áskorun heldur en til dæmis á Kirkjusandi eða uppi í Spöng þar sem loftar miklu meira um okkur.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .