Meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur faldi borgarlögmanni að stefna ríkinu vegna vanefnda á samningum sem kveða á um lokun NA-SV flugbrautar Reykjavíkurflugvallar.

Borgarráði var lagt fram svarbréf innanríkisráðuneytisins til Reykjavíkurborgar, en borgarstjóri hafði ritað tvö bréf til ráðuneytisins.

Í bréfum borgarstjóra er fjallað um vanefndir á samningum Reykjavíkurborgar og ríkisins um lokun  og ríkið hvatt til þess að efna gerða samninga um lokun brautarinnar og skipulag flugvallasvæðisins.

Í svarbréfinu er rökum Reykjavíkurborgar fyrir því að ráðuneytinu, fyrir hönd íslenska ríkisins, sé skylt að tilkynna um lokun NA-SV flugbrautar Reykjavíkurflugvallar mótmælt. Þá mótmælir innanríkisráðuneytið mögulegri bótaskyldu ríkisins vegna framkvæmda á Hlíðarendasvæðinu.

Í niðurlagi bréfsins er tekið fram að „telja verði eðlilegt að Reykjavíkurborg leggi fyrir dómstóla að fá úr þeim álitamálum leyst þannig að skorið verði úr um hvort sú skylda hvílir á ríkinu að loka flugbrautinni eða skipulagsreglum breytt.“

Í bréfi borgarstjóra til innanríkisráðuneytisins frá 30. okt síðastliðnum kemur fram að Reykjavíkurborg hafi ríka hagsmuni af því að ríkið standi við gerða samninga þannig að hægt verði að halda áfram með nauðsynlega uppbyggingu á Hlíðarenda. Þá stóð í bréfinu að efni innanríkisráðherra ekki framangreindar skuldbindingar muni Reykjavíkurborg höfða mál á hendur íslenska ríkinu til viðurkenningar kröfum sínum.