Fundur Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra með forseta Íslands á Bessastöðum þar sem lögð verður fram beiðni um þingrof hefst klukkan 13:00 í dag. Í kjölfarið verður kosið til Alþingis innan 45 daga, sem þýðir að kjördagur verður í síðasta lagi 28. október, svo haldið sé í hefðina að kjósa á laugardegi.

Reyna að ná samstöðu um ólíkustu mál

Þrátt fyrir að beiðni um þingrof verði lögð fram hefur Unnur Brá Konráðsdóttir forseti Alþingis boðað fulltrúa allra flokka á Alþingi á fund í dag til að reyna að ná samstöðu um einhver mál sem yrðu afgreidd áður en þinginu yrði slitið að því er Morgunblaðið greinir frá.

Ýmis mál virðast vera á óskalistanum eins og viðskiptablaðið hefur fjallað um, en þau eru eins misjöfn og flokkarnir eru margir. Þar eru meðal annars tvær hugmyndir um stjórnarskrárbreytingar, sértækt frumvarp um ríkisborgararétt fyrir fimm hælisleitendur, frumvarp um að sakfelldir barnaníðingar megi ekki starfa sem lögmenn, frumvarp um notendastýrða persónuaðstoð og svo má lengi telja.