Þann 17. september síðastliðinn úrskurðaði neytendastofa að Veiðimaðurinn ehf. hefði brotið gegn ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu með notkun auðkennisins Veiðimaðurinn og bannaði félaginu alla notkun þess.

Forsaga málsins nær tvo áratugi aftur í tímann og er á köflum lyginni líkust.

Ólafur Vigfússon er eigandi félagsins Bráð ehf., sem rekur tvær veiðivöruverslanir; Veiðihornið, og Veiðimanninn. „Söguna márekja aftur til ársins 1998. Þá kaupum við gamla veiðibúð í Hafnarstræti 5, sem er elsta veiðibúð á landinu, og hét bara  Veiðimaðurinn. Við keyptum ekki nafn og merki verslunarinnar, heldur var fyrirtæki sem hét Veiðimaðurinn ehf. sem átti nafnið, og við leigðum nafnið og merkið af þeim fyrstu árin.“ segir hann.

Veiðibúð allra landsmanna á netinu
Síðan skildu leiðir milli Bráðar ehf. og Veiðimannsins, og nafninu á búðinni í Hafnarstræti var breytt í Veiðihornið. Nokkrum árum síðar, 2005 eða 2006, fer Veiðimaðurinn ehf. í gjaldþrot, og eigendur Bráðar kaupa þá nafn og merki Veiðimannsins af þrotabúinu. „Fyrstu árin rákum við netverslun undir nafninu Veiðimaðurinn.is, og slagorðinu ‚Veiðibúð allra landsmanna á netinu‘. Í ársbyrjun 2016 ákváðum við að breyta „outletti“ sem við höfuðm verið með uppi á Krókhálsi með ódýrar veiðivörur þegar kreppan skall á, í fullgilda veiðibúð. Þá þýddi náttúrulega ekki að láta hana heita Veiðilagerinn, eins og hún hafði heitið, svo við ákváðum að nota nafnið okkar, sem við höfum notað á netversluninni í 10 ár: Veiðimaðurinn. Við breyttum búðinni og jukum við vöruúrvalið og breyttum um innréttingar og fleira. Þetta fór úr því að vera kreppubúð yfir í bara alvöru fullgilda flotta veiðibúð.“

Stofnað 25 dögum eftir opnunina
Veiðimaðurinn opnaði svo með pomp og prakt þann 1. maí 2016 en 25 dögum síðar, þann 25. maí 2016, kaupir keppninautur Ólafs nafn og merki af manni að nafni Paul O‘Keefe, og hafði átt Veiðimanninn ehf. áður en félagið fór í þrot. „Við höfðum ekkert hugmynd um þetta fyrr en í janúar á þessu ári, en þá fáum við bréf frá lögmanni þessa ágæta keppinautar okkar, þar sem þess var krafist að við létum nú þegar af allri notkun á þessu nafni sem við höfum átt í 12 ár. Við skildum hvorki upp né niður í þessu þegar við fengum þetta bréf og fórum að skoða málið, og komumst þá að því að keppinauturinn hafði stofnað einkahlutafélagið Veiðimaðurinn ehf. akkúrat 25 dögum eftir að við breyttum nafninu á búðinni.

Tilgangurinn að koma höggi á samkeppnisaðila
Síðan í janúar höfum við verið að verja okkur, því þetta er náttúrulega afar sérkennilegt, svo ekki sé meira sagt, þegar einhver á markaði ætlar að sölsa undir sig nafni keppinautar. Neytendastofa komst svo nýlega að þeirri niðurstöðu að við ættum nafnið og allur rétturinn væri okkar megin. Að lesa í gegnum allt málið er bara eins og einhver skáldsaga. Svo náttúrulega þegar þú lest niðurstöðuna og ákvörðunarorðin þá er þetta afar skýrt. Í mínum huga þá er tilgangurinn bara að koma höggi á okkur öðruvísi en að standa bara eðlilega í samkeppni.“

Ólafur fullyrðir að stofnendum hins nýja Veiðimanns ehf. 2016 hafi verið algerlega augljóst að eigendur Bráðar ehf. hafi rekið verslun undir þessu nafni í 10 ár, enda sé hann í nákvæmlega sama bransa. „Hann veit að við erum búin að vera með búð í rekstri í 12 ár, og þetta er skráð hjá einkaleyfastofu 2010. Að láta sér detta það í hug að reyna að sölsa undir sig nafni frá keppniauti, ég bara skil þetta ekki. Ég hélt að það hagaði sér enginn svona í viðskiptum í dag.“ segir hann að lokum.