Forstjóri Apple Tim Cook, segir í bréfi sem hann sendi til starfsmanna sinna að hann hafi rætt við forseta Bandaríkjanna á þriðjudag til að fá hann ofan af því að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu en það samtal hafi ekki verið nóg.

Í bréfinu lýsti Cook miklum vonbrigðum með ákvörðun forsetans og lagði auk þess áherslu á þá stefnu sem Apple hefur í umhverfismálum, en Apple notast nær einungis við rafmagn frá endurvinnanlegum orkugjöfum í starfsemi sinni. Sagði Cook einnig að baráttan gegn loftslagsbreytingum væri á ábyrgð allra.

Cook bætist þar með í hóp annara forstjóra bandarískra stórfyrirtækja sem gagnrýna ákvörðun Bandaríkjaforseta. Áður höfðu þei Elon Musk forstjóri Tesla, Jeff Immelt forstjóri General Electric, Brad Smith forstjóri Microsoft og Lloyd Blankfein forstjóri Goldman Sachs ásamt fleiri lýst vonbrigðum sínum með ákvörðun Trump.