Reynir Grétarsson, stofnandi Creditinfo – sem til skamms tíma nefndist Lánstraust – er útnefndur frumkvöðull ársins 2008 af Viðskiptablaðinu.

Lánstraust hóf starfsemi árið 1997. Í áramótatímariti Viðskiptablaðsins kemur fram að félagið, sem nú heitir Creditinfo, er gott dæmi um frumkvöðlastarf þar sem rekstur er byggður upp hægt og bítandi og ekki rasað um ráð fram, hvorki í uppbyggingu innanlands né utan.

Félagði sérhæfir sig í miðlun fjárhagsupplýsinga hér á landi en nú eru þessar upplýsingar nánast ómissandi í rekstri fjölda fyrirtækja enda veita þær aukið öryggi í viðskiptum og auka þannig skilvirkni í viðskiptalífinu.

Creditinfo er nú starfandi í mörgum löndum og fæst við fjölbreytta miðlun fjárhagsupplýsinga. Útrásin hófst árið 2002 og hefur verið byggð upp jafnt og þétt, að stórum hluta með innri vexti. Nú fer starfsemin fram í 12 löndum og starfsmenn eru um 450, þar af 50 hér á landi.

Nánar má lesa um Creditinfo í áhugaverðu viðtali við Reyni Gíslason, forstjóra og einn af stofnendum fyrirtækisins, í fyrrnefndu tímariti Viðskiptablaðsins sem kom út í dag.