*

fimmtudagur, 21. mars 2019
Innlent 12. júní 2018 17:01

Reynsla ferðamanna af Reykjavík jákvæð

Nú töldu 85% sumargesta og 91,5% gesta utan sumartíma reynslu sína af Reykjavík hafa verið frábæra eða góða.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Í skoðanakönnun sem Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar hefur gert fyrir Höfuðborgarstofu kemur fram að reynsla erlendra ferðamanna af Reykjavík árið 2017 var mjög jákvæð eins og í fyrri könnunum en þó var ánægjan minni að sumarlagi en mælst hefur áður. 

Nú töldu 85% sumargesta og 91,5% gesta utan sumartíma reynslu sína af Reykjavík hafa verið frábæra eða góða. Einungis 1% sumargesta töldu hana slæma en 14% sumargesta og 8% gesta utan sumars töldu upplifunina sæmilega. 

Þegar spurt var um afþreyingu fólks í Reykjavík og skipulagðar dagsferðir frá höfuðborginni sögðust flestir hafa farið á veitingahús í Reykjavík árið 2017 (77% að jafnaði) en 59% verslað.  

35% aðspurðra sögðust hafa farið í dagsferð frá Reykjavík, skoðað söfn/sýningar (35%), farið í sund/heilsubað (29%)  eða stundað næturlífið (22%). Færri fóru í skipulagða ferð um Reykjavíkursvæðið (17%), keyptu íslenska hönnun (13%) eða sóttu listviðburði (11%).

Erlendrar gistinætur í  Reykjavík árið 2017 voru flestar á hótelum (42,9%). Næst komu gistingar í Airbnb (22,9%), á gistiheimilum (11,1%), í öðrum íbúðum en hjá Airbnb (7,4%), hjá vinum/fjölskyldu (2,8%), á tjaldsvæði (2,3%) en síst í camping bílum (1,1%).