Rekstrarniðurstaða A hluta borgarsjóðs Reykjavíkur var á síðasta ári jákvæð um 2.647 milljónir króna, en áætlanir höfðu gert ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 475 milljónir króna. Var því niðurstaðan 2.162 milljónum króna betri en áætlað hafði verið.

Á sama tíma var rekstrarkostnaður borgarinnar 946 milljónum lægri en áætlun gerði ráð fyrir á sama tíma og tekjurnar voru 257 milljónir króna umfram áætlun.

Tvöfalt betri niðurstaða samstæðu

Rekstrarniðurstaða samstæðu A og B hluta borgarsjóðs var síðan ríflega tvöfalt betri en gert hafði verið ráð fyrir og fóru þær í 26.372 milljónir króna. Áætlanir höfðu gert ráð fyrir að þær yrðu 11.673 milljónir króna, svo þar munar um 14.699 milljónum krónum.

Helsta ástæðan fyrir betri afkomu má rekja til tekjufærslu á verðmati eigna Félagsbústaða hf. á sama tíma og samstæðan þurfti að greiða lægri fjármagnsgjöld vegna lægri verðbólgu og hagstæðari gengisþróunar en áætlað var. Jafnframt hafði þar áhrif gangvirðisbreytingar innbyggðra afleiða í raforkusamningum hjá Orkuveitunni.

Heildareignir ríflega 500 milljarðar

Heildareignir samstæðunnar námu í árslok 535,5 milljörðum króna, heildarskuldirnar ásamt skuldbindingum námu 290,5 milljörðum króna og eigð fé nam 245 milljörðum, en þar af var hlutdeild meðeiganda 13,5 milljarðar.

Eiginfjárhlutfall samstæðunnar hækkaði milli ára úr 42,6% í 45,8%.

Munur á skatt- eða þjónustutekjum

Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum að því er segir í tilkynningu borgarinnar. Um er að ræða Aðalsjóð, sem heldur utan um rekstur fagsviða, Eignasjóð og Bílastæðasjóð.

Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum.

Fyrirtækin eru:

  • Orkuveita Reykjavíkur
  • Faxaflóahafnir sf.
  • Félagsbústaðir hf.
  • Íþrótta- og sýningahöllin hf.
  • Malbikunarstöðin Höfði hf.
  • Slökkvilið höfuðborgar­svæðisins bs.
  • Sorpa bs.
  • Strætó bs
  • Aflvaki hf.
  • Jörundar ehf.