Félagið IEMI, sem áður hét Ísland Express og rak ferðaþjónustufyrirtækið Iceland Express, er nú formlega gjaldþrota í kjölfar skiptaloka búsins. Skiptum á búinu lauk 9. desember síðastliðinn. Lýstar kröfur í búið námu 1.323 millj- ónum. Frá þessu er greint í Lögbirtingablaðinu.

Eignir búsins að fjárhæð rúmlega 109 milljónir komu til skipta upp í samþykktar almennar kröfur upp á 1.146 milljónir eftir að búið var að gera upp búskröfur og forgangskröfur. Því komu alls 9,5% upp í almennar kröfur. Í nóvember árið 2012 keypti flugfélagið Wow air upp allan rekstur Iceland Express.

Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 25. mars árið 2013, fyrir rúmlega þremur og hálfu ári. Í grein Viðskiptablaðsins frá árinu 2013 kemur fram að stærstu kröfur félagsins hafi verið annars vegar hjá Wow air og hins vegar bókunarfyrirtækinu World Ticket. Stærsti kröfuhafi félagsins í bú Iceland Express var tékkneska flugfélagið CSA Airlines, sem Iceland Express leigði vélar sínar af

Brautryðjendur í lággjaldaflugi

Árið 2002 birtist tilkynning í Morgunblaðinu um stofnun nýs ferðaþjónustufyrirtækis, Iceland Express, sem hóf flug milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar og Keflavíkur og Stanstead. Þar kom jafnframt fram að fyrirtækið stefndi að 12% markaðshlutdeild og að lægstu fargjöldin yrðu um 14 þúsund krónur. Félagið var stofnað af athafnamönnum sem stefndu að því að auka samkeppni á íslenskum flugmarkaði. Iceland Express var fyrsta lággjaldaflugfélag Íslands, en árið 2002 var Icelandair með gífurlega sterka stöðu á markaði fyrir komu Iceland Express.

Árið 2004 keyptu Jóhannes Kristinsson og Pálmi Haraldsson meirihluta í fyrirtækinu af stofnendum. Eftir það tók svo við nokkuð viðburðarík saga félagsins. Pálmi Haraldsson, sem er einnig þekktur sem Pálmi í Fons, gerðist nokkuð stórtækur í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja og flugfélaga, en hann kom meðal annars að rekstri Sterling og Astraeus.

Störukeppni Pálma og Skúla

Í umfjöllun Viðskiptablaðsins árið 2011 er farið yfir þau fjögur flugfélög eða félög í ferða- þjónustu, þar sem Pálmi kom að rekstrinum. Þau voru: Fly Me, Maersk Air, Sterling og Astreus. Þau félög urðu öll gjaldþrota og nú hefur Iceland Express bæst í hópinn, þó að það hafi ekki formlega verið skilgreint sem flugfélag, heldur sem ferðaskrifstofa. Eignarhaldsfélagið Fengur í eigu Pálma Haraldssonar var eigandi Iceland Express. Félagið tók yfir 92% hlut í Iceland Express árið 2008 með 300 millj- óna króna eiginfjár innspýtingu. Gerð er ítarleg grein fyrir sögu félagsins í yfirliti Mbl.is frá árinu 2012, þegar Wow air tók yfir reksturinn.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift .