Starfshópur um lækkun þröskulds ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkað leggur til fjórtán leiðir til að bæta úr stöðunni. Meðal þess sem lagt er til eru tvær nýjar tegundir lána.

Starfshópurinn, sem skipaður var af félag- og barnamálaráðherra, kynnti tillögur sínar í dag í húsakynnum Íbúðalánasjóðs. Lagt er til að skilyrði um fyrstu kaup verði rýmkuð þannig þau nái meðal annars til fólks sem áður hefur átt húsnæði. Til að geta nýtt sér þær leiðir sem í boði eru yrði það þó skilyrði að hlutaðeigandi hafi ekki átt fasteign síðustu tvö ár.

Tvenn ný lán voru kynnt til sögunnar. Annars vegar startlán og hins vegar eiginfjárlán. Eru þau hugsuð til að koma til móts við þá sem geta ómögulega safnað fyrir útborgun í fyrstu íbúð. Í startláni felst að ríkið veiti lán, til viðbótar láni frá banka eða lífeyrissjóði, sem lokar bilinu að 90 prósent veðhlutfalli. Lánin verða með lægri vöxtum en almennt bjóðast á viðbótarlánum og kröfur um eigið fé lægri en þekkist. Þak verður sett á upphæð startlána og verða þau óverðtryggð.

Eiginfjárlánin munu verða á bilinu 15-30 prósent af kaupverði og verða þau án afborgana. Eru þau hugsuð fyrir þann hóp sem ekki ræður við greiðslubyrði startlána. Höfuðstóll lánsins tekur breytingum í samræmi við verð fasteignar og endurgreiðist við sölu fasteignar eða eftir 25 ár. Fyrstu fimm árin mun lánið ekki bera vexti.

Samkvæmt niðurstöðu starfshópsins er þröskuldur ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkað enn of hár, þrátt fyrir aukinn kaupmátt og sögulega lága raunvexti. Íbúðaverð hefur hækkað umfram ráðstöfunartekjur sem gerir fólki erfiðara að safna fyrir kaupum á íbúð. Þá hafa ráðstöfunartekjur ungs fólks hækkað minna en annarra aldurshópa og verð lítilla íbúða, sem henta fyrstu kaupendum, hefur hækkað mest.

Hinar tillögurnar tólf lúta að stuðningi við þá sem kjósa að byggja sjálfir, afsláttur á stimpilgjaldi við fyrstu kaup verði föst krónutala og unnt verði að fresta greiðslum á námslánum vegna kaupa á fyrstu íbúð. Þá eru lagðar til breytingar á vaxtabótakerfinu þannig að því verði frekar beint að þeim tekjulægstu, þær verði greiddar út mánaðarlega og réttur til þeirra mögulega takmarkaður við fyrstu ár lánstímans.

Starfshópinn skipuðu Frosti Sigurjónsson, formaður, Hermann Jónasson, Bergþóra Benediktsdóttir, og Anna B. Olsen og til vara Sigurður Páll Ólafsson. Starfsmaður hópsins var Ólafur Heiðar Helgason, sérfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.