Íslenska ríkið var í Hæstarétti í morgun dæmt til að greiða Grímsnes- og Grafningshreppi rúmlega 234 milljónir króna auk vaxta frá ársbyrjun 2014. Fjögur samhljóða mál annarra sveitarfélaga höfðu einnig fengið áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar og viðbúið að lyktir þeirra séu þær sömu. Samanlögð krafa málanna fimm er rúmar 683 milljónir króna án þess að tekið hafi verið tillit til vaxta.

Í málinu var deilt um breytingu sem gerð var á lögum um tekjustofna sveitarfélaga árið 2012. Breytingin fól í sér að heimilt væri að kveða á um í reglugerð að skerða mætti tiltekin framlög úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga til sveitarfélaga sem hefðu tekjur „verulega umfram landsmeðaltal“ af útsvari og fasteignaskatti.

Í kjölfar lagasetningarinnar var reglugerðinni breytt en samkvæmt henni skyldu framlög, úr fyrrgreindum jöfnunarsjóði, til þeirra sveitarfélaga, úr fyrrgreindum jöfnunarsjóði, þar sem heildarskatttekjur væru að minnsta kosti helmingi umfram landsmeðaltal falla niður. Höfðuðu sveitarfélögin fimm, það er Grímsnes- og Grafningshreppur, Fljótdalshreppur, Skorradalshreppur, Ásahreppur og Hvalfjarðarsveit, mál gegn ríkinu sem svaraði til þeirrar fjárhæðar sem þeim bar árin 2013-2016 ef ekki hefði komið til skerðingar ráðherra. Ástandinu hefur verið viðhaldið síðan þá og því ljóst að sveitarfélögin eiga inni kröfu vegna síðustu tveggja ára að auki.

Það réði úrslitum í málinu hvort umrædd lagabreyting hefði falið í sér of víðtækt framsal lagasetningarvalds til ráðherra. Bæði héraðsdómur og Landsréttur sýknaði ríkið en Hæstiréttur komst að annarri niðurstöðu.

„Í ljósi stjórnskipulegrar stöðu sveitarfélaga og sérstaklega fyrirmæla 2. mgr. 78. gr. verður lagaáskilnaðarregla ákvæðisins ekki túlkuð á annan veg en þann, að ekki sé heimilt að fella niður tekjustofna sveitarfélaga í heild eða að hluta nema með lögum. Það varð því ekki gert með reglugerð. [...] Ráðherra var þannig falið ákvörðunarvald um hvort skerða skyldi tekjustofna sveitarfélaga eða ekki andstætt því sem beinlínis var tekið fram í lögskýringargögnum með 2. mgr. 78. gr. svo sem rakið hefur verið,“ segir í dómi réttarins. Af þeim sökum var fallist á kröfu sveitarfélaganna.

Einn dómari, Benedikt Bogason, skilaði sératkvæði og taldi að stjórnarskrárákvæðið girti ekki að fullu fyrir að mælt yrði fyrir um slíka skerðingu í reglugerð ef viðhlítandi lagastoð er fyrir hendi. Taldi hann skerðinguna einnig vera í samræmi við hlutverk jöfnunarsjóðsins.