Í tillögu fjármálaráðherra að ríkisfjármálaáætlun 2017-2021, sem kynnt var í gær, er gert ráð fyrir því að útgjöld ríkissjóðs minnki verulega sem hlutfall af landsframleiðslu á næstu árum. Ef áætlunin gengur eftir verða útgjöld ríkis og sveitarfélaga 39,7% af landsframleiðslu árið 2021, en í fyrra var þetta hlutfall 42,7%.

Ef þetta gengur eftir munu umsvif hins opinbera ekki hafa verið minni, samanborið við landsframleiðslu, síðan 1997. Á því ári námu útgjöld hins opinbera 39,6% af landsframleiðslu. Síðan þarf að leita allt aftur til ársins 1987 til að finna lægra hlutfall opinberra útgjalda af landsframleiðslu.

Umfangið hefur aukist síðustu áratugi

Umfang hins opinbera hefur vaxið meira en sem nemur almennum umsvifum í hagkerfinu síðustu áratugi. Ýmsar ástæður eru fyrir því. Þar má nefna að opinber þjónusta hefur orðið umfangsmeiri, og að breytt aldurssamsetning þjóðarinnar hefur aukið útgjöld til málaflokka á borð við heilbrigðisþjónustu og öldrunarþjónustu.

Þá er ýmis opinber þjónusta, svo sem heilbrigðisþjónusta og menntun, þess eðlis að til lengri tíma litið hefur hið opinbera ekki séð sér fært að hagræða með fækkun starfa.

Loks jukust útgjöld hins opinbera mjög í kjölfar fjármálakreppunnar, meðal annars vegna aukinnar vaxtabyrði sem nam, og nemur enn, tugum milljarða króna á ári. Mest voru opinber útgjöld 55,7% af landsframleiðslu árið 2008.

48 milljarða afgangur 2021

Í ríkisfjármálaáætlun er lagt til að horfið verði frá þessari braut og bæði tekjur og útgjöld hins opinbera lækkuð í hlutfalli við landsframleiðslu. Á meðal meginmarkmiða áætlunarinnar eru að hvorki frumtekjur né frumgjöld ríkisins vaxi umfram vöxt landsframleiðslu fram til ársins 2021.

Gert er ráð fyrir að hið opinbera verði rekið með afgangi sem nemur hátt í tveimur prósentum af landsframleiðslu næstu fimm árin. Heildarafkoma ríkisins verður jákvæð um 48 milljarða árið 2021 ef áætlunin gengur eftir.

76% meira til æðstu stjórnsýslu

Þó lagt sé til að útgjöld minnki sem hlutfall af landsframleiðslu er gert ráð fyrir að landsframleiðsla vaxi nokkuð mikið næstu árin og þar af leiðandi skapist svigrúm til að auka útgjöld til hinna ýmsu málaflokka. Þannig er lagt til að æðsta stjórnsýsla landsins fái 76% meiri fjárveitingar að raunvirði árið 2021 en árið 2017 og að 30% meiru verði varið til utanríkismála.

Lagt er til að útgjöld til sjúkrahúsa og löggæslu vaxi um 20% að raunvirði á þessu fimm ára tímabili. Hins vegar er lagt til að útgjöld vegna landbúnaðarmála, húsnæðisstuðnings og löggjafarvaldsins lækki um nokkur prósentustig að raunvirði.

Þá er lagt til að útgjöld vegna ferðaþjónustu lækki að raunvirði um 15% á þessu fimm ára tímabili, þó lagt sé til að þau vaxi framan af tímabilinu.