Ríkissjóður hefur í dag greitt upp eftirstöðvar svokallaðs Avens skuldabréfs að fjárhæð 192 milljónir evra auk vaxta, en þetta kemur fram á vef Fjármálaráðuneytisins. Upphaflegt nafnverð bréfsins var 402 milljónir evra og var það afborgunarbréf sem gefið var út árið 2010 með lokagjalddaga 2025. Bréfið er því greitt upp níu árum á undan áætlun.

Ríkissjóður tók lánið til að fjármagna kaup á eignavörðum skuldabréfum Avens B.V. sem var félag í eigu gamla Landsbankans. Bankinn fékk sumarið 2008 fyrirgreiðslu frá Evrópska Seðlabankanum (ECB) gegn veði í skuldabréfum Avens B.V. Eignir félagsins voru fyrst og fremst íslensk skuldabréf og varð félagið stærsti einstaki eigandi krónueigna utan Íslands.

„ECB í Lúxemborg eignaðist við bankahrunið kröfu á Avens og undirliggjandi krónueignir. Í kjölfar samkomulags Seðlabanka Íslands og ríkissjóðs annars vegar og þrotabús Landsbankans og ECB í Lúxemborg hins vegar, um kaup á eignum Avens var gert samkomulag við 26 íslenska lífeyrissjóði um kaup þeirra á stórum hluta af krónueignum Avens gegn greiðslu í evrum. Um var að ræða skuldabréf útgefin af ríkissjóði og Íbúðalánasjóði,“ segir á vef Fjármálaráðuneytisins.

Eftirstöðvar Avens skuldabréfsins, sem námu 28,3 milljörðum króna, voru greiddar af gjaldeyrisinnistæðum ríkissjóðs í Seðlabankanum, en þær hafa vaxið umtalsvert á árinu. Spilar þar meðal annars inn uppgreiðsla Arion banka á víkjandi lánum ríkissjóðs sem er samtals að fjárhæð um 20 milljarða.