Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hefur gengið frá samningi við Landeigendafélagið Geysir ehf. um kaup á öllum eignarhuta félagsins innan girðingar á Geysissvæðinu.

Landeigendafélagið er í eigu þeirra níu landeigenda sem áttu land á svæðinu og hefur félagið átt tvo þriðju hluta landsvæðisins við Geysi á móti ríkinu.Hjörleifur B. Kvaran skrifaði undir samkomulagið fyrir hönd landeigenda.

Metið á 3 milljarða

Kaupverð eignarhlutarins verður lagt í mat þriggja dómkvaddra matsmanna en við undirritun samningsins tók ríkið formlega við umráðum alls lands sameigenda innan girðingar við Geysi. Ríkið á nú þegar stóran hlut aðliggjandi landssvæða utan girðingar, en í fjárlögum ársins var gefin heimild fyrir kaupunum.

Viðræður milli landeigenda og ríkisins  hafa lengi verið í gangi en í apríl fjallaði Viðskiptablaðið um að landeigendurnir hafi boðið ríkinu milljarð fyrir sinn eignarhluta í svæðinu, svo ætla megi að svæðið í heildina hafi þá verið metið á um 3 milljarða.

Ganga af eigum vegna yfirgangs

Þá var gert ráð fyrir um 900 milljón gestum á svæðið í sumar, en enn hefur bæst í ferðamannastraum á svæðinu síðan þær áætlanir birtust.

Viðskiptablaðið ræddi á sínum tíma við Garðar Eiríksson talsmann félagsins sem sagði meðal annars:

„Við höfum lengi reynt að fá viðtal við meðeigendann (ríkið) en það hefur nú ekki gengið lipurt. Við höfum meðal annars gert ríkinu tilboð um að kaupa okkar hlut en það hefur hingað til ekki verið vilji til þess,“ sagði Garðar í apríl

„Við höfum verið talsmenn þess að reyna að verja þessar eigur okkar og sæta þeirri ábyrgð að skila þeim til komandi kynslóða. Afhverju eigum við að selja? Til hvers er stjórnarskráin og eignarréttarákvæði hennar ef menn þurfa að ganga af eigum sínum bara vegna yfirgangs."

Spurður hvað hann eigi við, hvort hann sé að vísa til þess að ríkið vilji taka svæðið eignarnámi, svarar Garðar: "Það hafa legið fyrir hótanir um slíkt og ég man eftir samþykkt Samtaka ferðaþjónustunnar á sínum tíma, líklega 2013 eða 2014, um að landið yrði tekið af okkur. Maður spyr nú bara hvert er þetta lýðræði er farið þegar talað er í þessa veru."