Ferðamálastofa leitar nú að góðu íslensku heiti á orðinu „Hostel“. Hingað til hefur orðið yfirleitt hlotið þýðinguna farfuglaheimili en á vef stofnunarinnar kemur fram að það sem farfuglaheimili er lögverndað heiti þurfi að finna annað gott orð fyrir þessa tegund gistingar.

Tekið er dæmi af því að Ástralir og Nýsjálendingar hafa  notað orðið „Backpackers“  en það orð er einnig farið að sjást hér á landi fyrir þessa ákveðnu tegund gististaða.

„Ástæðan fyrir því að við erum að leita eftir góðum tillögum  tengist vinnu sem er nú í fullum gangi varðandi staðfærslu á nýjum viðmiðum fyrir mismunandi tegundir gistingar hér á landi innan nýja gæða- og umhverfiskerfis VAKANS en þessi nýju viðmið verða einmitt innleidd á næsta ári,“ segir á vef stofnunarinnar.

Til gamans má geta þess að ekki er langt síðan framleiddar voru tvær hryllingsmyndir sem hétu Hostel og Hostel: Part II. Báðum myndunum var leikstýrt af íslandsvininum Eli Roth, en Íslendingurinn Eyþór Guðjónsson fór með hlutverk í fyrri myndinni.