*

föstudagur, 22. júní 2018
Innlent 12. september 2017 16:06

Ríkið mun skulda 859 milljarða

Vaxtagjöld eru fjórði stærsti útgjaldaliður fjárlaga ársins 2018. Skuldaniðurgreiðslur fara úr 233 milljörðum niður í 36 milljarða milli ára.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Af um 800 milljarða útgjöldum ríkisins árið 2018 munu um 2/3 af þeirri fjárhæð fara til velferðar-, heilbrigðis- og menntamála.

Í bæklingi til kynningar á fjárlagafrumvarpinu tekið dæmi um hvernig útgjöldin skiptast á mann eftir flokkum, en langsamlega mest fer í heilbrigðismál eða 334 þúsund á hvern. Næst mest fer svo í málefni aldraðra eða 216 þúsund, og loks 161 þúsund á mann í örorkugreiðslur í almannatryggingakerfinu.

Í þessu samhengi er athyglisvert að sjá að vaxtagjöld nema um 150 þúsund krónum á hvern einstakling á næsta ári. Samgöngur útheimta 100 þúsund krónur á mann, fjölskyldumál 92 þúsund krónur og loks háskólar 87 þúsund og framhaldsskólar 84 þúsund krónur.

Umhverfismál kosta hvern landsmann 49 þúsund krónur, löggæsla 43 þúsund krónur og loks 39 þúsund krónur á hvert mannsbarn fer í húsnæðisstuðning.

Virðisaukaskattur stærsta tekjulindin

Tekjur ríkisins á árinu til að standa straum af þessum kostnaði eru áætlaðar um 833 milljarðar króna, en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun er áætlað að afgangurinn verði 44 milljarðar eftir árið. Þær koma að stærstum hluta af virðisaukaskatti, eða 239 milljarðar eða 29% af heildartekjunum, en tekjuskattur einstaklinga og fjármagnstekjuskattur stendur undir fjórðungi útgjaldanna.

Tryggingargjöld skila síðan 12% til viðbótar, en skattar á fyrirtæki skila 11%. Loks skila skattar á bifreiðar og eldsneyti 6%, sala á vöru og þjónustu 5%, aðrir skattar 4%, vörugjöld á áfengi og tóbak 3%, arðgreiðslur 2% og loks vaxtatekjur og veiðigjöld 1% hvort.

Skuldir ríkisins munu á þessu ári lækka um 233 milljarða frá fyrra ári, en á því næsta er einungis gert ráð fyrir að þær lækki um 36 milljarða, og standi í 859 milljörðum í lok ársins. Verður nettóskuldahlutfall ríkissjóðs þá 26,7% af landsframleiðleiðslu, og skuldir á hvern íbúa 2,6 milljónir króna. 

Stikkorð: útgjöld fjármál tekjur Vaxtagjöld