Atvinnurekendur telja veitta þjónustu ríkisins ekki vera í samræmi við gjaldtöku þess að því er fram kemur í nýrri könnun Félags atvinnurekenda meðal félagsmanna.

Eru niðurstöðurnar í samræmi við niðurstöður fyrri kannana, en könnunin nú var send til forsvarsmanna 152 fyrirtækja og svöruðu 77, svo svarhlutfallið var 50,6%.

Þegar fullyrðingin „gjaldtaka ríkisins er í samræmi við veitta þjónustu,“ var borin undir svarendur sögðust einungis 2% mjög sammála og 8% sammála. Hins vegar sögðust 38% vera henni ósammála og 13% mjög ósammála.

Í frétt FA um málið kemur fram að eitt af baráttumálum félagsins að eftirlitsgjöld stjórnvalda séu í samræmi við þá vinnu sem unnin er við eftirlitið.

Hefur FA gagnrýnt þá tilhneiginu að breyta eftirlitsgjöldum í skatta sem leggjast oft á veltu fyrirtækja, án tillits til þess hver raunkostnaður er af eftirlitinu.

Hefur eftirlitið skorað á stjórnvöld að taka á kerfi eftirlitsgjalda en það myndi auka kostnaðarvitund, hagkvæmni og aðhald í opinberum rekstri ef fyrirtækin greiddu raunverulegan kostnað við eftirlitið.

Þannig myndi ríkið jafnframt komast hjá dýrum málskóknum og minnir FA þar á dóm Hæstaréttar í máli Banana þar sem ríkið var dæmt til að endurgreiða háar fjárhæðir vegna oftekinna eftirlitsgjalda.

Mun félagið halda morgunverðarfund 4. apríl næstkomandi um skýrslu þess um eftirlitsgjöldin sem kemur út í næstu viku, og mun Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra halda erindi á fundinum.