Sigurður Atli Jónsson, forstjóri fjárfestingabankans Kviku, á langan feril að baki á íslenskum fjármálamarkaði. Sigurður Atli er hagfræðingur að mennt og hóf störf hjá Landsbréfum árið 1994. Hann stofnaði ALFA verð­ bréf árið 2004 og var framkvæmdastjóri þar fram að kaupum MP banka á fyrirtækinu árið 2011. Samhliða kaupunum var hann ráðinn forstjóri MP Banka og gegndi hann því starfi áfram eftir að fyrirtækið sameinaðist Straumi fjárfestingabanka og varð að Kviku.

Sigurður Atli segir að ríkið hafi gott tækifæri til að breyta til í bankakerfinu og telur að það sé forgangsverkefni að losa sig við það umfram eigið fé sem fast er í bönkunum.

Telurðu að skipta eigi stóru bönkunum upp í viðskipta- og fjárfestingabanka?

„Nú er það þannig að ríkið á tvo af þremur viðskiptabönkum og 13% hlut í þeim þriðja og í raun geta þær kringumstæður komið upp að ríkið eignist þann þriðja að öllu leyti líka. Ef við tökum málið lengra má minna á að ríkið er eigandi Íbúðalánasjóðs, sem er einnig á þessum markaði, þannig að eignir lánakerfisins eru að stórum hluta beint eða óbeint í eigu ríkisins. Í kerfinu er eigið fé upp á u.þ.b. 660 milljarða og þar af er eignarhlutur ríkisins tæplega 500 milljarðar. Það er engin smáræðis fjárhæð. Þessir þrír bankar, með ríkið sem þennan stóra eiganda, eru allir keimlíkir og ég met það svo að það væri skynsamlegt fyrir ríkið að sérhæfa þá. Ríkið ætti að leggja áherslu á hlutverk sitt í þessu kerfi með ákveðinni grunnfjármálaþjónustu; aðgangi að greiðslumiðlun og aðgangi að grunnfjármögnun fyrir atvinnulífið og heimilin. Ríkið á ekki að taka áhættu af flókinni fjármálastarfsemi eða standa í miklum samkeppnisrekstri á þessu sviði frekar en öðrum. Mér hefur alltaf þótt það skrítin hugmynd að ríkið sé í samkeppni við borgara sína. Þarna sé ég tækifæri sem eykur virði fyrir ríkið, það að sérhæfa þessi fyrirtæki.

Uppskipting í fjárfestingabanka og viðskiptabanka er ein leið. Ýmsar aðrar leiðir eru til einnig. Það er t.d. hægt að hugsa sér að leggja áherslu á að einn bankinn sé fyrst og fremst banki fyrir heimili og smærri og meðalstór fyrirtæki. Annar yrði sérhæfður og ynni fyrir stærri fyrirtæki, hugsanlega í miklu samstarfi við erlenda banka sem hafa meiri sérhæfingu og meiri fjárhagslegan styrk og ákveðna yfirburði.“

Sóun ríkisfjármuna í bankakerfinu

Einhvern tímann kæmi væntanlega að því að ríkið losi um einhvern eignarhlut sinn í bönkunum. Hver er þín afstaða til þess?

„Það er mikið talað um að selja hlutabréf í bönkunum og verðlagning þessara banka byggir á eiginfjárstöðu þeirra. Umræð­an hefur verið þannig að þetta eigið fé sé selt á einhverjum afslætti og ýmis hlutföll hafa verið nefnd í því samhengi undanfarin misseri. Nú er staðan þannig að í bankakerfinu er umfram eigið fé sem er eitthvað um 160 til 170 milljarðar. Með einföldum breytingum á fjármagnsskipan má segja að þetta umfram eigið fé geti verið enn þá meira. Stór hluti af þessu, um 130 milljarðar, er í raun í eigu ríkisins, en þessa 130 milljarða er ekki verið að nýta í rekstri bankanna, þótt þeir kalli auðvitað á ávöxtun. Þetta er jafn mikið og tvö sjúkrahús með öllum tækjabúnaði og næstum því sama tala og öll útgjöld til heilbrigðismála. Verkefni númer eitt er auðvitað að taka þessa fjármuni út úr þessari „notkun“ sem er auðvitað ekkert annað en sóun. Það má ekki að selja þessa fjármuni á einhverjum afslætti. Bankarnir eru vissulega að greiða út arð en það er allt of lítið.

Það magnaða í þessu er andstaðan í kerfinu gegn breytingum og það þarf að breyta menningunni þar einnig. Það er auðvitað voðalega gott að hafa öruggt kerfi sem byggist á miklu meira en það þarf á að halda, það eitt minnkar líkur á að viðkomandi stofnanir verði fyrir áföllum. Á móti kemur hins vegar óhagkvæmnin og sóunin og það er ekkert talað um það að slíkt kerfi er alls ekki ókeypis. Það að þurfa að standa undir tekjum vegna ávöxtunar umframeiginfjár er alveg galin hugmynd. Við erum í litlu hagkerfi með lítinn markað, sem skilgreindur er sem fákeppnismarkaður. Óhagkvæmni innan fyrirtækjanna verð­ ur á endanum óhagkvæmni fyrir samfélagið. Þetta er mjög vond staða og algerlega óþörf.“

Hvernig horfir hlutabréfamarkaðurinn við þér. Er rými fyrir hann til að stækka frekar?

„Ég er sannfærður um að hlutabréfamarkaðurinn komi til með að vaxa og nokkrir þættir spila þar inn í. Það er mjög mikilvægt að til staðar sé innlendur verðbréfamarkaður sem gerir fyrirtækjum kleift að afla sér fjármagns til að geta vaxið og dafnað. Ég vona auðvitað að fleiri innlend fyrirtæki „útskrifist“ af markaði héðan og komist á alþjóðlega markaði, líkt og dæmi eru um. Þróunin hefur verið nokkuð góð, hún hefur kannski verið hægari en menn ætluðu en hún er til staðar.

Hin hlið markaðarins eru fjárfestarnir. Það er gríðarlega mikilvægt að markaðurinn sé aðgengilegur fyrir fjárfesta með mismunandi eiginleika og mismunandi þekkingu svo fjárfestaumhverfið verði ekki of einsleitt. Það hefur verið ánægjulegt að sjá að á undanförnum misserum hefur hagur einkafjárfesta vænkast. Það stafar af aukinni hagsæld, hækkun eignaverðs og betri stöðu heimilanna. Það er mjög jákvætt og mjög mikilvægt að einkafjárfestar séu virkir á markaðnum. Við erum einnig með stóra og öfluga fjárfesta á markaðnum sem eru að vinna með fjármuni annarra. Það er nauðsynlegt að gott jafnvægi sé þar á milli. Í þriðja lagi er síðan mjög mikilvægt að erlendir fjárfestar séu til staðar sem taka þátt á innlendum markaði, alveg eins og það eru innlendir fjárfestar sem taka þátt á erlendum mörkuðum. Það felst áhættudreifing í því fyrir samfélagið. Við finnum að áhugi erlendra fjárfesta hefur aukist. Áhuginn er í raun almennt áhugi á Íslandi sem heild, á hugmyndunum og tækifærunum sem Ísland býður upp á. Auðvitað þurfa einstök fyrirtæki einnig að vera áhugaverðir kostir en ekki síður það að umhverfið hér sé jákvætt og það séu tækifæri til staðar. Það er mjög hollt að fá inn á markaðinn erlenda fjárfesta með mikla þekkingu, samanburð við önnur lönd og önnur hagkerfi. Flest það sem við öll lærum, lærum við af öðru fólki, beint og óbeint. Sem þjóðfélag eigum að nýta öll tækifæri til að auka þekkingu okkar í samstarfi við erlenda fjárfesta og bæta þannig samkeppnisstöðu okkar. “

Viðtalið við Sigurð Atla má lesa í heild sinni í nýjasta hefti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið rafrænt með því að smella á Tölublöð.