Ríkissjóður er stærsti eigandi fasteigna á Íslandi og umsvifamesti rekstraraðilinn á fasteignamarkaði. Umsvifin leggja skattfé að veði fyrir öllum húsnæðiskostnaði, draga úr eignaraðhaldi, auka vannýtingu húsnæðis og fjármagns og skapa hagsmunaárekstra. Því er brýnt að selja tæplega 200 þúsund fermetra undir húsnæði í eigu ríkissjóðs til einkaaðila til að losa um fjármuni sem nýtast betur við niðurgreiðslu opinberra skulda og fjármögnun á grunnþjónustu hins opinbera.

Þetta er niðurstaða nýrrar úttektar Viðskiptaráðs Íslands á umsvifum ríkisins á fasteignamarkaði.

Fasteignasafn ríkissjóðs telur 882 þúsund fermetra í 989 fasteignum. Jafngildir það um 125 Laugardalsvöllum og 22 Kringlum að flatarmáli. Stærsta fasteignafélag landsins, Reitir, á 440 þúsund fermetra í 140 fasteignum. Til samans eiga þrjú stærstu fasteignafélög landsins – Reitir, Reginn og Eik – rúmlega milljón fermetra í um 400 fasteignum, en félögin eru öll skráð á innlendum hlutabréfamarkaði.

Ríkið er því tvöfalt umsvifameira á fasteignamarkaði heldur en stærsta fasteignafélag landsins og nærri því jafn umsvifamikið og stóru fasteignafélögin til samans. Fasteignasafn ríkissjóðs er fjölbreytt. Skólar og sjúkrahús eru veigamest í safninu, en einnig er þar að finna skrifstofuhúsnæði, atvinnuhúsnæði, íbúð- arhúsnæði, sögufræg hús og geymslur, auk veigaminni fasteigna sem tengjast hjúkrunarheimilum, flugvöllum, lögreglustöðvum, fangelsum, kirkjum og grunninnviðum.

Raunverulegur kostnaður á huldu

Að sögn Björns Brynjúlfs Björnssonar, hagfræðings Viðskiptaráðs, leiðir fyrirferð hins opinbera á fasteignamarkaði til mikillar óhagkvæmni.

„Í úttekt sem gerð var fyrir fjármálaráðuneytið árið 2015 af hálfu starfshóps kom í ljós að opinberar stofnanir sem leigja skrifstofuhúsnæði af ríkinu á höfuðborgarsvæðinu greiða helmingi lægra leiguverð en tíðkast á markaði,“ segir Björn.

Meðalleiguverð á fermetra á mánuði var 2.066 kr. á almennum markaði en 830 kr. á skrifstofuhúsnæði í ríkiseigu, eða 149% hærra.

„Stofnanir sem fá afslátt af markaðsleigu fyrir húsnæði eru líklegri til að nýta það verr en ella, enda minni hvati til að hagræða húsnæðismálum. Starfsemi þeirra dreifist þá á fleiri fermetra. Hver starfsmaður hjá opinberum stofnunum hér á landi notar tvöfalt fleiri fermetra heldur en eðlilegt getur talist, eða 32 fermetra borið saman við 16 fermetra í alþjóðlegu viðmiði. Það bendir til þess að skrifstofuhúsnæði í eigu ríkisins sé vannýtt,“ segir Björn.

Í úttekt Viðskiptaráðs kemur enn fremur fram að útleiga opinberra fasteigna undir raunvirði sé falinn ríkisstuðningur og þ.a.l. falinn kostnaður. „Ríkissjóður afsalar sér þá hluta af mögulegum leigutekjum fasteigna sinna án þess að það komi fram sem fjárframlög til leigutakans. Raunverulegur kostnaður við rekstur opinberra stofnana kemur þá ekki fram í ársreikningum þeirra nema að hluta til,“ segir í úttektinni.

Ríkið á ekki að standa í atvinnurekstri

Björn segir ríkið vera of umsvifamikið á fasteignamarkaði. „Fasteignarekstur er atvinnurekstur sem heyrir ekki undir hlutverk ríkisins við að fjármagna grunn- þjónustu hins opinbera á borð við heilbrigðisþjónustu og menntun,“ segir Björn.

Ástæðan er þríþætt. Í fyrsta lagi ábyrgjast skattgreiðendur tjón, skaða og aðra áhættu án þess að kjósa að taka hana á sig. Í öðru lagi er ríkisreksturinn óhagkvæmur þar sem takmarkað eignaraðhald er til staðar. Í þriðja lagi leigir ríkið sjálfu sér húsnæði, sem skapar hagsmunaárekstra.

„Þar af leiðandi á fasteignarekstur frekar heima hjá einkaaðilum sem eru sérhæfðir í slíkum rekstri, og hafa hvata til að nýta eigin fasteignir með hagkvæmum hætti og rukka markaðsleigu,“ segir Björn. Ávinningurinn er sá, að áhætta skattgreiðenda minnkar, losað er um fjármuni, eignaraðhald og rekstrarhagkvæmni aukast og húsnæðisnýting bætist.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .