Skuldabréfamarkaðurinn er undirstaðan á fjármagns- og verðbréfamarkaði. Þangað sækja hið opinbera og einkaaðilar lánsfé frá eigendum fjármagns til að fjármagna venjubundinn rekstur, stórframkvæmdir eða fjárfestingar. Virkur markaður með skuldabréf skiptir höfuðmáli fyrir skilvirka miðlun á lánsfé, ekki síst í litlu hagkerfi líkt og því íslenska. Upplýsingagildi skuldabréfa er þar að auki ótvírætt fyrir mótun og miðlun sjálfstæðrar peningastefnu, þar sem þau geyma upplýsingar um væntanlega þróun verðbólgu og hagkerfisins.

Íslenski skuldabréfamarkaðurinn er langstærsti hluti innlenda verðbréfamarkaðarins og þar fer fram tæplega helmingur allra viðskipta á innlendum fjármálamörkuðum. Eftir að hafa náð sér hratt aftur á strik í kjölfar bankahrunsins hefur markaðurinn stækkað og skuldabréfaframboð breyst.

Markaðurinn hefur stækkað

Stærsti hluti íslensks fjármagns- og verðbréfamarkaðar er markaðurinn með skuldabréf. Markaðsvirði skráðra skuldabréfa á aðallista Kauphallarinnar í lok febrúar síðastliðinn var 2.372 milljarðar króna og tæplega 70% af verðbréfamarkaðnum. Til samanburðar er markaðsvirði skráðra hlutabréfa um 1.000 milljarðar, hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða 600 milljarðar og víxlar rúmlega 57 milljarðar.

Heildarvirði skuldabréfa hefur aukist talsvert undanfarin ár. Það tók markaðinn aðeins um tvö ár að ná fyrri hæðum eftir bankahrun, en frá lágpunktinum í nóvember 2008 hefur hann stækkað um 67%.

Velta á innlendum fjármálamörkuðum undanfarin ár hefur verið langmest á skuldabréfamarkaði. Í fyrra nam veltan 1.476 milljörðum eða 5,9 milljörðum á dag, sem er talsvert undir 2.161 milljarðs meðalársveltu síðastliðinn áratug. Veltan hefur minnkað bæði í hlutfalli við aðra innlenda eignamarkaði sem og í krónum talið undanfarin ár.

Breytingar í framboði

Aukninguna í markaðsvirði skuldabréfa undanfarin ár má í grófum dráttum rekja til breytinga í framboði og eftirspurn eftir skuldabréfum. Færa má rök fyrir því að bankahrunið, skuldabréfaútgáfur ríkissjóðs eftir hrun og fjármagnshöftin hafi haft þar mest áhrif.

Árið 2007 voru skuldabréfaútgáfur atvinnufyrirtækja og bankanna um 70% af heildarútgáfu og var um helmingur af öllum skráðum skuldabréfum útgefinn af einkaaðilum – fyrirtækjum og félögum, bönkum og öðrum lánastofnunum. Útgáfur ríkissjóðs voru hógværar, enda skuldir hins opinbera litlar eða í kringum 20% af landsframleiðslu. Við áfallið fóru bankarnir og fyrirtæki í landinu í þrot, samhliða því að útgáfa ríkisskuldabréfa jókst mikið vegna aukinnar skuldsetningar og hallareksturs ríkissjóðs. Í lok árs 2012 höfðu alls sex óverðtryggðir flokkar (vegna mikillar verðbólgu) og einn verðtryggður verið gefnir út eftir hrun, að markaðsvirði 555 milljarðar króna. Þessi uppbygging, og „flótti“ fjárfesta í öryggi ríkisskuldabréfa, útskýrir hina miklu veltu á skuldabréfamarkaði í kringum hrunið.

Ríkið stærsti útgefandinn

Samsetning skuldabréfaframboðsins á Íslandi hefur því breyst talsvert undanfarinn áratug. Í dag eru um tveir þriðju af skuldabréfamarkaðnum pappírar með ábyrgð hins opinbera – óverðtryggð og verðtryggð ríkisskuldabréf, ríkisvíxlar, skuldabréf sveitarfélaga og íbúðabréf Íbúðalánasjóðs. Bréf útgefin af einkaaðilum, auk erlendra aðila, eru þriðjungur af markaðnum, eða um 670 milljarðar. Stærð markaðarins skýrist því að mestu af íhlutun hins opinbera.

Skipting markaðarins milli óverðtryggðra og verðtryggðra bréfa hefur einnig breyst. Í byrjun árs 2008 var hlutfallslegt markaðsverðmæti verðtryggðra skuldabréfa 87% og óverðtryggðra 13%. Fimm árum síðar voru óverðtryggð bréf fjórðungur af markaðnum. Nú eru óverðtryggð skuldabréf orðinn stærri hluti af markaðnum, en óverðtryggð ríkisskuldabréf ein og sér eru 30% af markaðnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .