Stjórnvöldum var heimilt að setja lög á verkfall Bandalags háskólamanna (BHM), samkvæmt dómi sem Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp í dag. Vísir greinir frá þessu.

Lögin voru samþykkt í júnímánuði eftir að verkfallsaðgerðir félagsmanna BHM höfðu staðið yfir í tíu vikur. BHM höfðaði mál í kjölfarið þar sem það taldi lagasetninguna brjóta gegn stjórnarskrá, en héraðsdómur féllst hins vegar ekki á það.

Gerðardómur var skipaður í kjölfarið á setningu laganna og hefur hann frest til 15. ágúst næstkomandi til að ákveða kaup og kjör félagsmanna BHM.