Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag íslenska ríkið til að greiða karlmanni 2,4 milljónir í skaðabætur og um 16,3 milljónir í miskabætur, samtals 18,7 milljónir króna vegna dóms Hæstaréttar frá árinu 1998.

Maðurinn var handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald í maí 1997 vegna gruns um aðild að stórfelldri líkamsárás á veitingastaðnum Vegas í miðbæ Reykjavíkur. Hann sat í gæsluvarðhaldi í 123 daga. Héraðsdómur sýknaði manninn en annar maður var sakfelldur og dæmdur í tveggja ára fangelsi.

Fyrir Hæstarétti var maðurinn hins vegar sakfelldur og dæmdur til tveggja ára og þriggja mánaða fangelsis, en einn dómari skilaði sératkvæði og taldi að sýkna ætti manninn. Maðurinn sat samtals í fangelsi, með gæsluvarðhaldinu, í 477 daga.

Hann kærði málið til Mannréttindadómstóls Evrópu og hélt því fram að Hæstiréttur hefði endurmetið munnlegar yfirheyrslur sem gefnar voru fyrir héraðsdómi, en slíkt brýtur í bága við 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Maðurinn óskaði eftir endurupptöku málsins og var hann sýknaður í málinu árið 2012.

Vegna þessarar málsmeðferðar voru manninum greiddar ofangreindar bætur.