Fyrsta kísilmálmverksmiðjan landsins, verksmiðja United Silicon í Helguvík, er gjaldþrota. Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka er langtímamarkmið bankans að koma kísilverksmiðjunni í framtíðareigu sérfróðra aðila í þessum iðnaði. Ef verksmiðjan verður seld þarf ríkisstjórnin að samþykkja nýja eigendur vilji þeir halda fjárfestingarsamningnum. Óljóst er hvað verður um raforkusamninginn og breytt verksmiðja gæti þurf að fara í umhverfismat.

Ríkisstjórnin þarf að samþykkja

Ýmsar spurningar vakna þegar kemur að breyttu eignarhaldi. Árið 2014 gerði United Silicon fjárfestingarsamning við stjórnvöld. Samningurinn felur í sér ýmsar ívilnanir, til dæmis í formi afslátta af sköttum og opinberum gjöldum. Þessar ívilnanir gilda í allt að 10 ár frá því að gjaldskylda myndaðist hjá fyrirtækinu. Ríkisaðstoð United Silicon nam um 4% af fjárfestingu.

Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þarf ekki að gera nýjan fjárfestingasamning við þá aðila sem taka við rekstri verksmiðjunnar. Hins vegar þarf ríkisstjórnin að samþykkja nýjan aðila.

Raforkusamningur og umhverfismat

United Silicon er jafnframt með raforkusamning við Landsvirkjun um allt að 35MW af afli. Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun er í samningnum ákvæði, sem fjallar sérstaklega um aðstæður ef viðskiptavinir fara í greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrot. Á þessum tíma sé óljost hvað verði um samninginn því framhaldið muni meðal annars ráðast af afstöðu þrotabúsins.

„Ef óskað verður eftir aðilaskiptum mun það þarfnast frekari skoðunar og samþykki af hálfu Landsvirkjunar," segir svari Landsvirkjunar við fyrirspurn Viðskiptablaðsins. Annað hvort mun nýr aðili, sem tekur við verksmiðjunni af þrotabúi USi og þá eftir atvikum samningnum, halda áfram kaupum á rafmagninu frá Landsvirkjun eða að rafmagnið sem fór til USi verður selt öðrum. Mikil eftirspurn er eftir rafmagnssamningum við Landsvirkjun og ef svo fer að ekki verði af áframhaldandi nýtingu rafmagns vegna USi er ljóst að rafmagnið mun nýtast til annarra verkefna."

Þessu til viðbótar getur farið svo að verksmiðjan þurfi að fara í umhverfismat eftir að breytingar hafa verið gerðar á henni. Skipulagsstofnun tilkynnti United Silicon síðastliðið vor að breytingar á verksmiðjunni væru tilkynningarskyldar til stofnunarinnar, til ákvörðunar um hvort þær skuli háðar mati á umhverfisáhrifum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .