Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir er einn af sjö framkvæmdastjórum Landsbankans og situr í framkvæmdastjórn en auk framkvæmdastjóranna á Steinþór Pálsson bankastjóri sæti í henni. Hrefna var ráðin til starfa árið 2010 en hafði áður verið sjóðsstjóri hjá verðbréfafyrirtækinu Arev og forstöðumaður skráningarsviðs Kauphallar Íslands.

Ríkið á núna 98% í Landsbankanum. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs kemur fram að stefnt sé að því að selja 30% eignarhlut á næsta ári og árið 2016. Nýta á fjármagnið til að greiða niður lán sem tekin voru vegna endurfjármögnunar fjármálastofnana í kjölfar hrunsins.

Hrefna Ösp telur þetta mikilvægt fyrir ríkið, sérstaklega þar sem það skapi svigrúm til að greiða niður skuldir. „Þegar það verði gert, þá hækkar lánshæfismat ríkisins og fyrirtækin, þar með talið bankarnir, munu hækka í kjölfarið. Þess utan væri þessi sala holl fyrir rekstur bankans því það er meira aðhald með fleiri hluthöfum. Auðvitað þarf að vanda til verka,“ segir Hrefna.

“Ríkisstjórnin þarf að segja hvert hún vill stefna með eignarhaldið — hvaða langtímaáætlanir séu uppi varðandi eignarhald ríkisins í bankanum. Mín skoðun er sú að best sé að ríkið yrði áfram kjölfestufjárfestir og haldi eftir um 25%-30% eignarhlut í bankanum en að öðru leyti yrði eignarhald dreift. Þannig heldur ríkið áfram miklum áhrifum en þó þannig að aðrir hluthafar njóta sín líka.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .