Unnið er að því að leggja lokahönd á ný og uppfærð drög að frumvarpi til laga um póstþjónustu samkvæmt upplýsingum frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Í drögunum er lagt til að einkaréttur ríkisins í póstþjónustu verði lagður niður og að opnað verði fyrir samkeppni á póstmarkaði. Stefnt er að því að leggja fram frumvarp til nýrra póstlaga á Alþingi í vor.

Ámóta frumvarpsdrög voru áður lögð til umsagnar í tvígang, en ekki náðist að leggja fram drögin, meðal annars vegna pólitísks ágreinings og þingkosninga.

Íslenska ríkið fer með einkarétt á dreifingu bréfa sem eru upp að 50 grömmum í þyngd. Íslandspóstur annast einkarétt ríkisins, en umtalsverður hagnaður hefur orðið af einkaréttarþjónustu Íslandspósts undanfarin ár. Einkaréttinum fylgir alþjónustuskylda, sem felst í því að tryggja öllum landsmönnum jafnan að­gang að póstþjónustu, þó án þess að hafa til þess einkarétt. Önnur póstþjónusta, svo sem fjölpóstur og flutningaþjónusta, fer fram á samkeppnismarkaði.

Frumvarpsdrög til nýrra póstlaga byggja á Evróputilskipun (2008/6) sem er sú þriðja og síðasta í röð tilskipana um opnun póstmarkaða innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Með tilskipuninni er kveðið á um afnám einkaréttar og að opnað skuli fyrir samkeppni á póstmarkaði. Skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum fela í sér að stjórnvöldum er skylt að innleiða þær gerðir sem hafa verið teknar upp í samninginn. Tilskipunin hefur þó ekki verið tekin inn í samninginn og telst seinagangur íslenskra stjórnvalda við innleiðingu tilskipunarinnar ekki vera brot á samningnum.

Á hinn bóginn er Ísland eina EES-ríkið sem ekki hefur innleitt tilskipunina og afnumið einkarétt á sviði póstþjónustu.

Í svari samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins kemur fram að þörf sé á því að endurskoða núggildandi löggjöf á sviði póstþjónustu óháð framangreindri tilskipun. Póstmagn fari sífellt minnkandi á sama tíma og rafrænar dreifileiðir hafa tekið yfir stóran hluta samskipta.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins hefur samkeppnisstaðan á póstmörkuðum EES lítið breyst eftir innleiðingu tilskipunarinnar. Þau fyrirtæki sem áður höfðu einkarétt hafa gjarnan viðhaldið markaðsráðandi stöðu sinni, enda tekur mörg ár að byggja upp samkeppnismarkað.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .