Ríkisendurskoðun telur að stjórnvöld eigi að meta hvort enn sé þörf fyrir Skrifstofu rannsóknastofnana atvinnuveganna (SRA) og mögulegan ávinning af því að flytja verkefni hennar annað.

Í frétt á vef Ríkisendurskoðunar segir að skrifstofan annist bókhalds- og greiðsluþjónustu fyrir 21 stofnun, verkefni og sjóð á vegum ríkisins. Stærstu stofnanirnar eru Hafrannsóknastofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís).

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að vegna breytinga í umhverfi SRA og rannsóknastofnana atvinnuveganna er starfsemi skrifstofunnar nú aðeins að litlu leyti í samræmi við reglugerðir sem um hana gilda en þær eru frá áttunda áratug síðustu aldar. Þá kemur fram að aðilum sem SRA þjónustar hefur nýlega verið fjölgað án þess að fjárveitingar til skrifstofunnar væru hækkaðar. Enn fremur er bent á að vaxtatekjur af bankareikningum aðila sem skrifstofan þjónustar renni að hluta til SRA en ekki þeirra sjálfra og gagnrýnir Ríkisendurskoðun það.

Ríkisendurskoðun hvetur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið til að yfirfara verkefni SRA og endurmeta þörf fyrir skrifstofuna, m.a. með tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafa á umhverfi rannsóknastofnana atvinnuveganna undanfarna áratugi. Ríkisendurskoðun áætlar að ef SRA verði lögð niður muni árlega sparast a.m.k. 20 ̶ 25 milljónir króna.