Ríkissjóður Íslands gaf út í dag skuldabréf að fjárhæð 500 milljónir evra, sem jafngildir 61,5 milljörðum króna. Skuldabréfin bera 0,5% fasta vexti og voru gefin út til 5 ára á ávöxtunarkröfunni 0,56%.

Síðast gaf ríkissjóður úr skuldabréf erlendis árið 2014 og var það fyrsta opinbera útgáfa ríkissjóðs í Evrópu síðan 2006.

Fjárfestar sýndu útgáfunni mikinn áhuga á fundum í London í vikunni og nam eftirspurn um 3,9 milljörðum evra eða ríflega áttfaldri fjárhæð útgáfunnar, en almennt er mikil eftirspurn um þessar mundir eftir ríkisskuldabréfum á tiltölulega háum vöxtum. Fjárfestahópurinn samanstendur af seðlabönkum og öðrum fagfjárfestum, aðallega frá Evrópu. Umsjón var í höndum Citi, Barclays, Deutsche Bank og Nomura.

Samhliða nýju útgáfunni gerði ríkissjóður tilboð í eldri skuldabréfaútgáfu frá árinu 2014 sem nam 750 milljónum evra. Eigendur bréfa að nafnvirði 397,6 milljónir evra tóku tilboði ríkissjóðs og fengu þeir sem vildu forgang í nýju útgáfunni.

Heildarskuldsetning ríkissjóðs eykst um 12,5 milljarða króna við aðgerðina.

„Þessi útgáfa markar tímamót en ríkissjóður hefur aldrei tekið lán á hagstæðari kjörum“, segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

„Viðbrögð fjárfesta var vel umfram væntingar en eftirspurn var ríflega átta sinnum meiri en framboðið. Þátttakan í endurkaupunum og eftirspurn eftir nýju útgáfunni er merki um traust fjárfesta og er viðkurkenning á þeim góða árangri sem náðst hefur ríkisfjármálum og við stjórn efnahagsmála. Hækkun lánshæfismats Fitch í síðustu viku hefur án efa einnig haft jákvæð áhrif . Aðgerðin er liður í að framfylgja langtímastefnu í lánamálum ríkisins þar sem markmiðin eru meðal annars þau að tryggja aðgengi að erlendum lánsfjármörkuðum til lengri tíma og að stórum og fjölbreyttum hópi fjárfesta og setur mikilvægt viðmið á hagstæðum kjörum fyrir aðra sem þurfa aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum."