Allur eignarhlutur Ríkissjóðs í Reitum fasteignafélagið hefur verið boðinn til sölu. Er um áður útgefna hluti í fyrirtækinu að ræða sem nema 6,38% alls hlutafjár í fyrirtækinu.

Stendur Lindarhvoll, sem annast umsýslu, fullnustu og sölu á eignum ríkissjóðs, að sölunni og munu Markaðsviðskipti Landsbankans hafa umsjón með sölunni. Lágmarkstilboð er í 200 þúsund hluti í Reitum, en nafnverð hvers hlutar er 1 króna. Lágmarksgengi í útboðinu eru 83,30 krónur á hlut.

Mun salan fara fram í útboði sem verður með svokölluðu hollensku fyrirkomulagi, sem felur í sér að öll samþykkt tilboð bjóðast tilboðsgjöfum á sama gengi, þar sem lægsta samþykkta gengi ræður sölugenginu.

Rennur tilboðsfrestur út klukkan 8:30 mánudaginn 22. ágúst næstkomandi, og verður tilkynnt um niðurstöðu útboðsins á vefsíðu landsbankans að útboði loknu, að lágmarki klukkutíma síðar. Nánari útboðsskilmálar eru á vef Landsbankans.