Ríkisskattstjóri hefur snúið við bindandi áliti sínu varðandi skattskyldu eftirgefinna skulda við uppgjör þrotabúa og segir nú að skuldir umfram eignir þrotabúa skuli ekki teljast til skattskyldra tekna.

Fyrr í mánuðinum birti skattstjóri bindandi álit þar sem hann komst að þveröfugri niðurstöðu. Samkvæmt því áliti skyldi mismunur lýstra krafna í þrotabú annars vegar og eigna þess hins vegar teljast til tekna, þar sem um eftirgjöf skulda væri að ræða.

Í breytta álitinu segir m.a. að telja verði að „enginn vafi leiki á um, hvort um skattskyldar tekjur sé að ræða í þeim tilvikum þegar eftirgefnar kröfur eiga í hlut. Álitamál er á hinn bóginn hvort að tekjuhugtakið taki til þess þegar kröfuhafar fá ekki kröfur sínar efndar að fullu við gjaldþrotaskipti vegna þess að eignir nægi ekki til að greiða lýstar kröfur.“

Ennfremur segir í breytta álitinu: „Kröfuhafi sem fær ekki fullnustu kröfu sinnar við gjaldþrotaskipti þrátt fyrir að hafa lýst henni í búið hefur almennt gert allt sem í hans valdi stendur til að fá kröfuna greidda. Ytri aðstæður valda því að krafa hans fæst ekki greidd að hluta eða öllu leyti samkvæmt kröfulýsingu hans. Samkvæmt frumvarpi skiptastjóra til úthlutunar er almennt á því stigi um að ræða ófullnægðar kröfur eins eða fleiri kröfuhafa þegar eignir þrotabús nægja ekki til greiðslu. Þær kröfur sem standa eftir við þessar aðstæður teljast þannig ekki eftirgefnar skuldir og þar með ekki tekjur í skilningi skattaréttar. Til viðbótar framangreindu verður að hafa í huga að ekki liggur ljóst fyrir fyrr en við lokaúthlutun skiptastjóra að hve miklu leyti kröfuhafar fá fullnustu krafna sinna. Tímamarki skattskyldu þrotabúsins lýkur þannig á sama tíma og endanlega liggur fyrir hvað greiðist og hvað greiðist ekki.“

Viðskiptablaðið fjallaði um málið á sínum tíma og komst að því að skattskylda þrotabúa stóru bankanna þriggja og Icebank yrði þá um 1.870 milljarðar króna miðað við efnahagsreikninga búanna um síðustu áramót.

Að því gefnu að breytt álit ríkisskattstjóra standi þá mun ekki til slíkrar skattskyldu koma.