Ef áætlanir ganga eftir mun ríkið skila nálægt 40 milljarða afgangi á árinu 2018 og munu skuldir ríkisins þá fara niður í 10-15% af vergri landsframleiðslu í lok kjörtímabilsins. Er það að því gefnu að ríkið selji helming hluta í bönkunum.

Þetta kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins um grein Benedikt Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra í vikuritinu Vísbendingu.

Benedikt ritstýrði vikuritinu sjálfur á árunum 2006 til 2016, en hann segir þar fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar næstu fimm árin fela í sér mikilvæga stefnubreytingu.

Nefnir hann sem dæmi að áætlað er að afgangur ríkissjóðs fari úr 1% eins og var í tíð fyrri ríkisstjórnar, upp í 1,6% af vergri landsframleiðslu á árunum 2018 til 2019. Hann lækki svo um 0,1 prósentustig á ári til ársins 2022.

Ef bankarnir verði ekki seldir stefnir fjármálaáætlunin til þess að skuldir ríkisins muni nema 21% af vergri landsframleiðslu, en ekki eru tiltekin tímamörk sölunnar í stefnunni.

„Mikilvægt er að aðstæður til sölu verði góðar og góð sátt um hana," skrifar Benedikt.