Eldi á atlantshafslaxi í sjókvíum hefur verið bannað með öllu í Washingtonríki á norðausturströnd Bandaríkjanna. Jay Inslee ríkisstjóri staðfesti það í gær með undirskrift sinni undir löggjöf sem ríkisþingið samþykkti í byrjun mánaðarins með 31 atkvæði gegn 16.

Fyrirtækið Cooke Aquaculture, sem hefur stundað laxeldi þar, sagði staðfestingu ríkisstjórans vera mikil vonbrigði en að sjálfsögðu verði farið að vilja löggjafans.

Fyrirtækið fær þó frest til ársins 2022 til að leggja niður allt eldi á atlantshafslaxi í sjókvíum.

Þingið ákvað að grípa til þessa ráðs eftir að hundruð þúsunda laxa sluppu úr kvíum fyrirtækisins í Puget-sundi í ágúst síðastliðnum. Óttast er að staðbundnir laxastofnar séu í hættu vegna þessa. Talið er að laxarnir sem sluppu hafi verið allt að 263 þúsund talsins.

Fyrirtækið fékk einnig sekt upp á 332 þúsund dali, sem samsvarar rúmlega 33 milljónum króna.