*

þriðjudagur, 11. desember 2018
Erlent 3. október 2014 19:41

Ríkisstjórn Svíþjóðar sú fyrsta feminíska

Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar, segir nýja ríkisstjórn verða „fyrstu feminísku ríkisstjórn" heimsins.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Ný vinstristjórn var í dag mynduð í Svíþjóð af sænskum jafnaðarmönnum og umhverfisverndarsinnum. Stefan Löfven, formaður sósíaldemókrata og forsætisráðherra, segir hana munu vera „fyrstu feminísku ríkisstjórn" heimsins. Öll ráðuneyti verða skylduð til að vinna að jafnrétti kynjanna.

Utan kynjajafnréttis verða helstu baráttumál nýrrar ríkisstjórnar að fjölga störfum, bæta menntakerfi og lækka útblástur gróðurhúsalofttegunda. Löfven hvatti í dag meðlimi í stjórnarandstöðu til að vera samvinnuþýðir. „Nú þurfum við að beina sjónum að því sem sameinar okkur," segir Löfven í samtali við Financial Times.

Gróðavæðing verði stöðvuð

Meðal annarra loforða verður að þyngja refsingar við kynferðisbrotum og gera það refsivert fyrir svía að kaupa vændi í öðrum löndum. Löfven lýsti því einnig yfir að „leitin að gróða" í mennta og heilbrigðiskerfi Svíþjóðar verði stöðvuð. Auk þessa hefur Löfven lýst því yfir að Svíþjóð muni viðurkenna tilvist Palestínu sem ríkis.

Ríkisstjórn Löfvens stendur frammi fyrir vandamálum í ljósi þess að hún er minnihlutastjórn og hefur eingöngu 39% atkvæða. Hún mun því þurfa að reiða sig á stuðning annarra flokka í sænska þinginu.

„Þetta verður ein veikasta ríkisstjórn í sænskri stjórnmálasögu nútímans," segir Ulf Bjereld, stjórnmálafræðiprófessor við háskólann í Gautaborg.  

Stikkorð: Svíþjóð